Wednesday, December 2, 2009

Tropa de Elite

Tropa de elite






Ég horfði nýlega á brasilísku myndina Tropa de elite í leikstjórn José Padilha. Myndin gerist í Rio og fjallar um sérdeild innan lögreglunnar sem heitir BOPE og baráttu hennar gegn eiturlyfjasölu, gengjum Rio og hina spilltu "venjulegu" lögreglu.
Lesendur þekkja nú örugglega flestir myndina Cidade de Deus (e.: City of God). Hún er þekktust af mörgum brasilískum myndum sem fjalla um líf götustráka í Rio og baráttu þeirra um það að komast af í hörðum heimi. Tropa de elite veitir okkur nú innsýn inn í þessa sömu veröld en frá öðru sjónarhorni.

Í myndinni fylgjumst við með 3 mönnum og lífi þeirra og starfi innan lögreglunnar í Rio. Sá sem segir okkur sögu myndarinnar (voice over) ásamt því að koma okkur inn í aðstæður í byrjun myndar er Nascimiento, foringi hjá BOPE og stjórnar þar sínu eigin liði innan þess. Frá upphafi myndarinnar fylgjumst við einnig með sögu og þróun tveggja vina, Neto og André, innan lögregluliðs Rio.

Þeir félagar ganga í lögregluna af réttum ástæðum og ætla að verða heiðvirðir lögreglumenn sem í raun vernda fólkið. Þeir komast hins vegar fljótt að því hversu spillt lögreglan er í raun og lítið gengur hjá þeim. Svo komast þeir í kynni við BOPE. BOPE er í raun hörð átakasveit sem ræðst vægðarlaust til atlögu gegn gengjunum. Heiðvirðir en harðir.

Við komumst fljótt að því að Nascimiento er að leita að eftirmanni sínum og hefur komið auga á þá félaga og heldur að annar þeirra gæti orðið hugsanlegur arftaki sinn. Þeir eru mismunandi týpur. Neto þráir ekkert heitar en að vera innan BOPE og hefur þar fundið köllun sína í lífinu. Hann er þó ekki beittasti hnífurinn í skúffunni og hættir til að vera of kappsamur og Nascimiento er hræddur um að hann gæti orðið of kappsamur í verkefnum sínum og gleymt að hugsa. André er hins vegar klár og yfirvegaður en hann langar til að verða lögfræðingur og er í skóla að læra þá grein meðfram vinnu sinni.

Með því að fá að fylgjast með þessum þremur ólíku persónum sem allar eru flæktar inn í sama heim á mismunandi forsendum og sækjast allir eftir mismunandi hlutum tekst myndinni að veita okkur breiða innsýn inn í þann heim sem BOPE fæst við. Í gegnum André sjáum við þá fordóma sem almenningur hefur á lögreglu. Við sjáum þetta í umræðum í lögfræðitímum og í gegnum nám hans og félaga í skólanum. Hann segir engum að hann sé lögregla en þegar upp koma umræður í skólanum um lögreglu og skipulag hennar er hann sá eini sem virðist hafa trú á því að einhver hluti hennar sé í það minnsta ekki spilltur og reyni að starfa heiðarlega gegn gengjunum. Fólk hefur lært að lifa með gengjunum og gera ráð fyrir þeim í sínu daglega lífi. Neto litar allt svart eða hvítt, annað hvort ertu með eða á móti og þeir sem hjálpa ekki eru á móti honum og markmiði BOPE. Þegar við fylgjumst með Nascimiento fáum við að vita af hverju hann vill hætta. Hann á konu og nýfætt barn og við sjáum þá erfiðleika sem lögreglan stendur frammi fyrir. Þeir eru í stöðugri hættu, þurfa sífellt að vera viðbúnir og vinna myrkrana á milli.



Ég hafði gaman að söguþræði myndarinnar og uppbyggingu hennar. Eins og áður sagði er Nascimiento eins konar sögumaður myndarinnar. Hann segir okkur sögu sína, Neto og André. Sögur þeirra þriggja fléttast svo skemmtilega saman og mynda fléttu myndarinnar. Framgangur og þróun myndarinnar er góð. Hún byrjar hægt og rólega og kynnir vel aðstæður og söguna en eftir því sem á líður eykst frásagnarhraðinn og eykur það spennustig myndarinnar. Með því að sýna okkur þrjár mismunandi hliðar og skoðanir allra þeirra sem tengjast þeim félögum tekst José Padilha að veita okkur mjög fjölbreytta og greinargóða sýn á líf þessara sérsveitarmanna og erfiðleikanna sem þeir standa frammi fyrir. Myndin gengur eins og smurð og eru atriðaröð og kvikmyndataka til fyrirmyndar.

Ég mæli því eindregið með því að næst þegar þú viljir horfa á skemmtilega spennumynd þá smellirðu Tropa de Elite í tækið með tilheyrandi poppi og látum. Toppræma.

9


Ég skellti mér um daginn í að horfa á myndina 9.

Þessi mynd gefur sýn á heiminn eftir að vélar hafa útrýmt mannkyninu. 9 (Elijah Wood) er lítil dúkka sem vaknar í þessum nýja heimi og fer á stjá til að leita merkis um líf. Hann rekst fyrir tilviljun á aðra dúkku, 2 (Martin Landau), sem segir honum að það séu fleiri eins og þeir til en áður en hann getur leitt hann til hinna þá kemur vélhundurinn Beast og ræðst á þá. 5 (John C. Reilly) finnur 9 eftir að Beast hverfur á brott með 2 og leiðir hann í athvarfið sem 1 (Christopher Plummer) hefur útbúið handa þeim og útnefnt sjálfan sig leiðtoga í. Í athvarfinu eru 1, 5, 6 og 8 að fela sig fyrir heiminum. 9 tekst að sannfæra 5 um að koma með sér í björgunarleiðangur á eftir Beast til að sækja 2 en þegar þeir hafa, með aðstoð 7 (Jennifer Connelly), fundið og leyst 2 þá klúðrar 9 málunum með því að stinga litlum kubbi, sem hann fann þegar hann vaknaði til lífsins, í samsvarandi gat á vélinni Brain og vekur hana, morðingja mannfólksins, til lífsins. Eftir það þurfa dúkkurnar að taka á honum stóra sínum og finna leið til að drepa vélina áður en hún sogar lífið úr þeim öllum og endar þar með alla von um endurreisn heimsins.

9 er ótrúlega flott og vel gerð mynd...myndrænt séð. Að horfa á hana í HD er algjört konfekt fyrir augun því hvert einasta smáatriði fær að njóta sín í botn og að því leitinu til var rosa gaman að horfa á hana. Söguþráðurinn eftir Shane Acker (sem leikstýrir henni líka) og Pamela Pettler er ekkert endilega sá besti í heiminum en hann gengur þannig alveg eins langt og hann nær.

Persónurnar í myndinni eru mjög skemmtilegar. Það er 1 sem er algjör skræfa sem felur sig bakvið hatt, staf og skikkju til marks um vald sitt, 9 sem er nýr á svæðinu en stendur samt fast á gildum sínum og lætur ekki stjórnast af hótunum, 7 sem er eina stelpan en samt hörðust af þeim og 6 (Crispin Glover) sem er snargeðveikur en er samt sá sem segir mest af viti. Leikararnir sem ljá raddir sínar gera það öll mjög vel og sést að mikið var hugsað um hver myndi passa í hvert hlutverk ekki bara að troða frægu fólki inn sem er mjög ánægjulegt.

Niðurstaðan er sú að þetta er mjög spes mynd en samt þess virði að sjá fyrir áhugafólk um flottar teiknimyndir. Á því sviði fær hún stóran plús í kladdann.

3 af 5 stjörnum

Tuesday, December 1, 2009

Þættir sem ég horfi á...

Jæja, þar sem ég nenni ekki að sofa þá er ég að spá í að skella inn smá færslu um þá sjónvarpsþætti sem ég fylgist eitthvað með af viti.


Family Guy:
Þessir gamanþættir eftir Seth McFarlane hófu göngu sína árið 1999 og mörkuðu nýtt upphaf í teiknimyndabransanum. Loksins var komin mainstream teiknimyndasería sem höfðaði aðeins meira til eldra fólks.

Serían fjallar um algjörlega óstarfhæfa fjölskyldu sem samanstendur af: Peter Griffin (Pabbinn) sem er nautheimskur, feitur, hvatvís og hugsar eftir að hann framkvæmir. Lois Griffin (Mamman)sem er hin týpíska heimavinnandi húsmóðir eins og sjá má í flestum amerískum þáttum. Chris Griffin (eldri sonurinn) nautheimskur og feitur eins og pabbi sinn og algjörlega félagslega einangraður. Meg Griffin (dóttirin) hverjum er ekki sama um hana? Stewie Griffin (yngri sonurinn) morðóður smákrakki með furðulega mikla tæknikunnáttu, hæfileikann til að tala (þó að aðeins valdir einstaklingar skilji hann) og aðeins eitt takmark, að drepa móður sína. Og svo loks Brian Griffin (hundurinn) hann gengur á tveimur fótum og er sá gáfaðasti í húsinu, reynir að koma sér áfram sem rithöfundur en það gengur illa, áfengissjúkur og fílar heimskar stelpur.

Þættirnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir þannig að það er lítið hægt að fara í einhvern söguþráð hérna en þeir fjalla basically um daglegt líf fjölskyldunnar sem að er nógu skrýtið fyrir en það er líka truflað af súrum og oft virkilega fyndnum innskotum af atburðum sem hafa þegar gerst.

Húmorinn í þáttunum er oft barnalegur, steiktur og það er stundum eins og höfundarnir hafi verið á sterkum lyfjum þegar þátturinn var skrifaður.


South Park:

Trey Parker og Matt Stone eiga heiðurinn af bestu teiknuðu grínþáttum (að mínu mati) sem miðaðir voru algjörlega á eldri áhorfendur. Hófu göngu sína árið 1997 og núna nýlega var 13 seríu að ljúka. Það átti að hætta að framleiða þessa þætti eftir 8. seríu en guði sé lof að það var ekki gert. Þetta eru vafalaust beittustu grínþættirnir sem eru í sjónvarpinu þessa dagana og mér finnst það furðulegt að engin íslensk sjónvarpsstöð hafi tryggt sér sýningarréttinn á þessum snilldarþáttum fyrir löngu!

South Park fjallar um 4 stráka sem búa í smábænum South Park í Colarado fylki í bandaríkjunum. Þessir þættir eru í miklu uppáhaldi hjá mér því að húmorinn í þeim er svo svartur á köflum og höfundunum er ekkert heilagt. Einnig þá er mikil samfélagsgagnrýni falin inn í húmornum og er gaman að sjá höfundana gera grín af ótrúlegustu þáttum samfélagsins í gegnum líf fjögurra 4. bekkinga. Það er eiginlega voða erfitt að lýsa persónunum í þáttunum því að þó að strákarnir fjórir séu allir mjög skilgreindir karakterar þá er erfitt að koma orðum að þeim. Þú þarft ekki að horfa nema á einn þátt til að sjá hvernig týpur hver og einn er. Stan er bara Stan, veit ekki hvernig ég á að lýsa honum. Kyle er skynsami gyðingurinn. Kenny er fátæki heimski gaurinn sem deyr alltaf og Cartman er fordómafullur háfviti og mögulega einn fyndnasti karakter sem hefur verið skapaður!

Þættirnir fjalla um ævintýri þeirra stráka sem verða mjög skrautleg og blandast inn í þaumargar frægar og umdeildar persónur. Þessir þættir eru hrein snilld og ég mæli með því að ef þér finnst gaman að hlæja og hefur gaman að svörtum húmor að þú kíkir á þessa!


House:


Læknadrama af hæsta gæðaflokki. Þessir þættir snýta að mínu mati öllu þessu Greys anatomy og ER drasli þegar það kemur að skemmtun og gæðum. Það gæti tengst því að ég tengi aðeins betur við kaldhæðinn, miðaldra snillinginn sem Dr. Greogory House er frekar en ég tengi við miðaldra konu á breytingarskeyðinu. En allavegna þá eru þessir þættir eftir David Shore hrein snilld.

Þættirnir hófu göngu sína árið 2004 og náðu strax gríðarmiklum vinsældum. Hugh Laurie er frábær í hlutverki Dr. House og þættirnir eru allir frábærlega gerðir.

Þeir fjalla um andfélagslegan og bráðsnjallan lækni sem sér hæfir sig í því að greina hina flóknustu sjúkdóma. Sér til hjálpar hefur hann 4 manna teymi af ungum læknum sem sjá um alla fótavinnuna. House gerir allt sem þarf til að ná fram greiningu og þykir mörgum aðferðir hans vera virkilega öfgafullar en það er bara eitt af því sem er skemmtilegt við þáttinn. En það að vera snillingur hefur aukaverkanir. Hann á svo til enga alvöru vini, lifir fyrir vinnuna sína og heimfærir greingingarhæfileika sína yfir á allt sem gerist í kringum hann. Nánasti vinur hans Wilson má varla sleppa því að drekka morgunkaffið sitt án þess að House sé farinn að grein afhverju það er. Í fyrstu seríunum þá var House háður vicodin sem er sterkt verkjalyf sem hann þurfti að taka útaf löppinni á sér en hún varð svo til ónothæf eftir að hann lenti í mótorhjólaslysi. En nú í byrjun 6. seríu þá fylgjum við honum í gegnum meðferð við lyfjafíkninni og svo í gegnum baráttuna við það að halda sér frá þessum lyfjum.

Það má vægast sagt segja að þessi þáttur hefur allt. Frábæran leikhóp, vel skapaðar persónur, gott drama, dash af læknalingói sem hljómar mjög vel, mikið af snilli og alveg heilan helling af skemmtun. Ef þú hefur ekki horft á House áður, drífðu þig þá í því!

How I met your mother:


Okei fjölmiðlar segja "hinir nýju friends þættir" en sorry það kemst enginn alveg svo langt... allavegna ekki ennþá á meðan Friends eru svona ferskir í minningunni hjá okkur. Það sést kannski best á því að HIMYM æðið fór ekki af stað fyrr en eftir að það var hætt að sýna friends og fólk þurfti að finna eitthvað í staðinn og þá sáu framleiðendur leik á borði og byrjuðu með HIMYM. En engu að síður mjög skemmtilegir þættir og góð afþreying.

Þættirnir eru skrifaðir af Carter Bays og Craig Thomas og hófu göngu sína árið 2005 en það er einmitt árið eftir að Friends hætti. Tilviljun? Þeir fjalla um vinahóp sem býr í New York og samanstendur af fimm mjög ólíkum karakterum. Söguþráðurinn í þáttunum er þannig að þetta er pabbi sem er að segja börnunum sínum söguna af því hvernig hann kynntist mömmu þeirra. Pabbinn er Ted Mosby, lærður arkitekt með mikla drauma um það að fá að hanna skýjakljúfur í New york. Hann bíður spenntur eftir að hitta ástina í lífi sínu og giftast og lifa hamingjusamur að eilífu. En til þess að hlutirnir gangi upp þá þarf stelpan að standast staðlana sem Lily setur en Lily er stjórnsamur leikskólakennari sem þarf að hafa puttana í öllu sem gerist. Eiginmaður hennar er kærastinn hennar úr háskóla Marshall Eriksen hann er líka besti vinur Teds. Marshall er lögfræðingur sem vill helst vinna fyrir umhverfið en þurfti að taka vinnu í banka upp á peninga, en sá sem reddaði honum vinnunni er fjórði karakterinn í þáttunum (og aðalgaurinn að flestra mati) Barney Stinson. Barney er kvennabósi í hæsta gæðaflokki, hann hefur enga samvisku og er bara snillingur. Hann er alltaf í jakkafötum og finnst að allir karlmenn eigi að vera í jakkafötum, en hann á sér viðkvæma fortíð... Síðasta aðalpersónan er Robin Scherbatsky, fréttakona frá Kanada sem álpast inn í hópinn eftir að hafa verið kærasta Ted í smátíma, það kemur þó snemma fram að svona kynntist hann Robin frænku þannig að hún er útilokuð sem sú sem hann endar með.

Þættirnir eru hver um sig mjög fyndnir en allir áhorfendur bíða þó spenntir eftir því að komast að því hver er mamma barnanna, þó ég hafi á tilfinningunni að það verði smá bið í það ennþá.


Chuck:



Þessir snilldarþættir eru skrifaðir af Chris Fedak og Josh Schwartz og fjalla um ungan mann að nafni Chuck Bartowski sem að átti bjarta framtíð fyrir framan sig, var að klara stanford, átti fallega kærustu og hafði heiminn að fótum sér þangað til að hann var rekinn úr Stanford fyrir svindl. En besti vinur hans kom fyrir sönnunargögnum um svindlið og lét reka hann og stal kærustunni hans í leiðinni. Þaðan lá leiðin niðrávið Chuck hætti að trúa á sjálfan sig og endaði á því að búa hjá systur sinni Ellie og kærastanum hennar Dr. Awesome (Devon Woodcomb). Það virtist ekki mikið ætla að gerast í lífinu hjá Chuck þar sem hann sat fastur í lélegu starfi sem tölvuviðgerðarmaður í "Buy More" búð og getur aldrei gert neitt því að besti vinur hans Morgan Grimes heldur aftur af honum. Þangað til að besti vinur hans úr Stanford, Bryce Larkin, brýst inn í ofurtölvu bandaríska ríkisins "The intersect" og stelur öllum gögnunum sem eru kóðuð inn í myndir og sendir á Chuck ásamt því að eyða raunverulegu tölvunni. Chuck opnar póstinn tregur en þegar hann gerir það þá prentast allar upplýsingarnar inn í hausinn á honum og núna er hann orðinn mikilvægasta eign Bandaríkjanna. Til að vernda hann eru sendir tveir fulltrúar frá bandaríska ríkinu. Agent John Casey frá NSA og Agent Sarah Walker frá CIA. John Casey er hinn týpíski hardcore her gaur með svo til engar tilfinningar en aftur á móti fara bráðum straumar að fljúga á milli Chuck og fokking heita CIA agentsins Söruh Walker.

Í þáttunum þá fylgjum við Chuck, Söruh og Casey þar sem þau sinna hinum ýmsu verkefnum eins og að finna sprengjur og bjarga heiminum frá gereyðingu ásamt því að við fylgjumst með þvi hvernig Chuck tekst að halda jafnvægi milli njósnalífsins og alvöru lífsins ásamt því að fylgjast með sambandinu sem þróast milli hans og Söruh. Þannig að þríþættur söguþráður sem skilar skemmtilegum þætti í hvert einasta skipti.

ég var dottinn langt á eftir í þessum þáttum og átti nánast alla aðra seríuna eftir en eina andvökunótt þá bætti ég úr því og kláraði aðra seríu og núna get ég varla beðið eftir þeirri þriðju!


Þetta eru þeir þættir sem ég horfi reglulega á og fylgist vel með. Að sjálfsögðu horfi ég á aðra þætti enda verður það seint sagt um okkar tíma að þar hafi vantað skemmtunarefni.

Monday, November 30, 2009

Surrogates



Ég ákvað að skella mér í að horfa á myndina sem rústaði ferli Bruce Willis, or so they say. Hvernig hann ætlar að ná sér aftur á strik eftir þetta disaster veit ég ekki, það verður alla vega erfitt.



Myndin, sem er byggð á grafískri skáldsögu eftir Robert Venditti og Brett Weldele, dregur upp mynd af framtíð þar sem næstum allir notast við véllíkama sem er stjórnað af heilabylgjum úr svokölluðum stofnstólum. Þar situr manneskjan allan daginn og lætur vélina gera það sem henni dettur í hug því þetta er sagt vera 100% öruggt fyrirbæri, það er hægt að vera skotinn og hoppa af byggingum án þess að nokkuð komi fyrir manneskjuna sjálfa. Söguþráður myndarinnar gengur út á að það er framið morð í þessum nýja fullkomna heimi. Tvær manneskjur deyja við það að vélarnar þeirra eru steiktar úti á götu með einhverju leynivopni, hlutur sem á ekki að geta gerst. FBI maðurinn Tom Greer (Bruce Willis) er settur í málið og hann er ekki lengi að finna morðingjann en það kostar hann næstum lífið. Neyddur til að fara út í heim án véllíkamans síns til að upplýsa hver ber ábyrgð á vopninu sem gæti bundið enda á þennan nýja fína lífstíl gerir það að verkum að Tom kemst að ýmsu sem hann vildi ekkert endilega vita um uppruna vopnsins og lífið almennt. Þegar öllu er á botninn hvolft þarf Tom að taka stóra ákvörðun um hvort hann vilji halda lífinu eins og það er eða rústa öllum vélunum og neyða heiminn til að byrja upp á nýtt...dammdammdamm

Þessi mynd er gerð út á að vera svakaleg spennumynd með Bruce Willis en endar á að að vera álíka spennandi og að vaska upp. Hún er fyrirsjáanleg á háu stigi og feilar bara algjörlega að halda manni við efnið. Allur leikur er stórlega ýktur í að vera eins vélmennalegur og hægt er og endar á að vera of vélmennalegur þannig að maður tengir ekkert við einn einasta karakter. Meira að segja eftir að Brúsi hættir að vera vélmenni er ekkert sem lætur mann finna til með honum eða halda með honum þar sem sagan er svo illa skrifuð að maður veit ekki á hvaða hlið málsins hann er fyrr en hann tekur hina stóru ákvörðun í risastóra spennuatriðinu sem er heilar 2 mínútur.

Tæknibrellurnar eru að sama skapi illa gerðar eins og restin af myndinni. Allar hreyfingar eru ýktar og gerðar stífari en einu sinni hjá vélmennum í dag (robodog anyone??) og vélmennin eru látin vera með ofurmannlega eiginleika eins og að geta hoppað upp á rútur og gáma eins og ekkert væri eðlilegra en hvort sem það er vegna lélegs búnaðar eða lélegra gleraugna þá gátu tæknimennirnir ekki látið það líta út fyrir að það væri eðlilegt fyrir þessi stífu grey að geta þetta. Illa fótósjoppað og þar með ekki grípandi.

Myndatakan er bara eins og gengur og gerist í B-hasarmyndum, ekkert verið að gera eitthvað magnað en þeir náðu þessu þó öllu á filmu. Þrátt fyrir að heimurinn, og Bruce Willis, hefðu ekkert grátið það ef það hefði ekki náðst.

Í heildina á litið þá liggur leikstjórinn, Jonathan Mostow (sem er ekki ókunnugur vélmennamyndum eftir að hafa leikstýrt Terminator 3), eflaust heima hjá sér ásamt vini sínum Bruce og grætur sig í svefn á hverju kvöldi yfir falli ferilsins.

Þetta var svo slæmt að ég fæ mig ekki einu sinni til að gefa stjörnur, en hey ef þið hafið 2 tíma til að henda og fá aldrei aftur þá er þetta hugsanlega skárra en Gigli...þó ég lofi engu.

Saturday, November 28, 2009

Topplisti

Jæja hérna kemur þá topplistinn minn, ég biðst forláts á því hversu lengi hann var að koma. Ég ákvað að taka saman meira svona þær myndir sem að ég get horft á aftur og aftur frekar en að telja upp þessar stöðluðu virkilega góðu myndir. Ákvað að gera þetta aðeins meira að mínum lista frekar en útlistun á top 10 myndunum á imdb.com. En allavegana hér koma myndirnar í engri sérstakri röð.

Jesus Christ Superstar (1973):


Já, ég er söngleikjafrík.. shocking. Þetta er uppáhalds söngmyndin mín og það skiptir engu máli hvort að ég er að horfa á hana í tíunda eða tuttugasta skipti, mér finnst hún alltaf jafn skemmtileg. Sagan sjálf er keimlík þeirri sem sögð er í „stóru bókinni“ en myndin er skrifuð þannig að maður finnur til með Júdasi þegar hann neyðist til að svíkja besta vin sinn og læriföður. Þrátt fyrir að engin stórnöfn séu í leikarahópnum þá er myndin í flestalla staði mjög vel leikin og tónlistin er frábær. Enda verður það ekki tekið af Andrew Lloyd Webber að hann er snillingur þegar það kemur að því að semja kvikmyndatónlist. Það er ótrúlegt hvað honum tekst að fanga atburðarásina, umhverfið, tilfinningarnar og söguna í tónlistinni sinni og eftir að hafa séð myndina nógu oft þá get ég liggur við sleppt því að horfa á myndina og bara hlustað á soundtrackið. Umhverfið í myndinni er virkilega flott en myndin er tekin upp í gömlum rústum, hellum og fjallgarði nálægt Beit Guvrin í Israel. Þetta umhverfi virkar virkilega ekta og gefur myndinni virkilega mikinn sjarma.

Leikstjórinn Norman Jewison (Fiddler on the roof (1971), Rollerball (hin epíska snilld 1975)) fer einstaklega vel með þetta umhverfi og var greinilega óhræddur þarna að taka smá áhættur. En hann flakkar óspart um í tíma og sameinar „nútímann“ árið 1973 og gamla tímann. Pælingin, að hafa þetta endurleik hjá leikhóp og þær viðbætur við umhverfið (eins og t.d. skriðdrekar, byssur og nútímalegur klæðnaður) gefur myndinni skemmtilegan blæ.

Myndin var síðan endurgerð árið 2000 og sá ég þá endurgerð um daginn og mig langaði helst að gráta. Sjaldan hef ég séð mynd slátrað jafn illa í endurgerð en þar hefur allt farið niðrávið. Umhverfið er skelfing, leikurinn er verri og ný útsetning á lögunum varð til þess að ég slökkti áður en myndin kláraðist. En til allrar hamingju þá get ég ennþá skemmt mér yfir þeirri gömlu góðu og mun eflaust gera það um ókomin ár.

We were soldiers (2002):


Þá er komið að fyrstu stríðsmyndinni. We were soldiers er byggð á bókinni „We were soldiers once.. and young“ eftir Harold G. Moore (en hann barðist í víetnam stríðinu) og Joseph L. Galloway (stríðsfréttamaður sem flaug með inn í bardagann) þar segja þeir frá því sem gerðist á hinu viðburðaríka landing zone x-ray. Mel Gibson fer með aðalhlutverkið í myndinni og leikur Lt. Col. Hal Moore, annan höfund bókarinnar. Hann túlkar karakterinn sem Hal Moore var æðislega, trúaðan mann sem er annt um fjölskylduna sína og hermennina sína, óhræddur og frábær leiðtogi. Stríðsfréttamaðurinn Joseph Galloway er leikinn af Barry Pepper en hann nær að fanga þá undrun ,sem að margir fréttamenn fundu fyrir þegar þeir fóru á vígvöllinn og áttuðu sig á því að stríðið var ekki eins fallegt og það hljómaði í fréttunum, frábærlega. Það sem mér finnst virkilega gott við þessa mynd er það sama og gerir hana frábrugðna flestum öðrum stríðsmyndum en það er að það er líka fjallað um lífið heima við. Mikið af myndinni gerist heima í herstöðinni innan hóp eiginkvenna sem óttast um líf mannanna þeirra hvern einasta dag. Myndin nær vel yfir þá sorg og þá sálarangist sem fylgir því að eiga einhvern nákominn í bardaga.

Leikstjórinn Randall Wallace stendur sig með stakri prýði og má ekki sjá á neinu að þetta sé aðeins önnur myndin sem hann leikstýrir. Mikið er um flott skot og man ég þá helst eftir því þegar hann brýtur svokölluðu 180° regluna á mjög dramatískan hátt. Þá er víetnami að hlaupa að hetjunni okkar með byssustinginn tilbúinn og það er tekið tracking skot af honum svo er klippt yfir sjónlínuna og búmm hinn eitursvali og harði Sgt. Maj. Basil Plumley (leikinn af Sam Elliot) skýtur hann í hausinn. Tónlistin í myndinni er mjög góð en hún fangar mann algjörlega á réttum stöðum. Allt í allt þá er þetta æðisleg en öðruvísi stríðsmynd sem gefur manni betri sýn yfir það sem á sér stað í bardaganum sem og heima við.

Crash (2004):


Hér erum við að tala um Slumdog Millionaire myndina árið 2004. Low budget mynd sem að kom líka svona frábærlega út. Í myndinni eru nóg af stórum nöfnum en handritið og pælingin með myndinni laðaði að sér stjörnulið leikara. Myndin er æðislega vel skrifuð af Paul Haggis og hann leikstýrir henni einnig af stakri snilld. Við fáum að sjá flókna fléttu af atburðum, sem að tengjast allir saman á endanum á snilldarlegan hátt. Þessi mynd er mjög áhrifarík enda fjallar hún um mjög viðkvæmt málefni, rasisma. En hún gerir það á þann hátt að ég efast um að það hafi ofboðið mörgum. Myndin kafar ofaní það afhverju rasismi er til staðar og hvernig hann getur haft áhrif á fólk sem heldur að það búi ekki yfir neinum fordómum. Það er frekar erfitt að rekja söguþráðinn í stuttu máli þar sem hann er mjög margþættur og tvístrast í argar greinar þannig að ég ætla ekki einu sinni að reyna.

Allur leikur í þessari mynd er mjög góður og meira að segja Ludacris stendur fyrir sínu. Myndvinnsla og tökur eru til fyrirmyndar og í heildina er þetta mjög vel gerð, leikin og unnin mynd. Það er kannski þess vegna sem hún vann óskarinn fyrir bestu myndina, hver veit?

Apocalypse Now (1979):


Þá er komið að annarri stríðsmyndinni. Þetta meistaraverk eftir Coppola kom út árið 1979 og fjallar um Benjamin L. Willard (Martin Sheen) sem að er virkilega ruglaður í hausnum eftir að hafa verið í víetnam stríðinu, en hann er sendur í leiðangur inn fyrir óvinalínur til að finna Walter E. Kurtz (Marlon Brando) sem hefur lokað sig af inni í skógum víetnam og upp hefur risið í kringum hann einskonar sértrúarsöfnuður. Þessi mynd er svona góð vegna þess hversu vel hún fangar hryllinginn sem að á sér stað í stríði. Þetta er ekki hin klassíska mynd þar sem gæjinn drepur 3000 manns og horfir á álíka marga félaga sína deyja og kemur síðan heim og fer að sofa. Þessi mynd er virkileg svöl og skartar einni bestu línu sem ég veit um „I love the smell of napalm in the morning“.

Myndin er vel leikin og vel gerð, og það er fullt af virkilega svölum skotum, eins og þegar þyrlurnar koma lágt yfir sjóndeildarhringinn í morgunsárið. Það eru til tvær útgáfur af þessari mynd, orginal myndi og svo redux sem að er aðeins lengri og með viðbættum atriðum. Mér finnst orginallinn betri því að atriðin sem að koma inn í Redux gera bara ekki nóg fyrir mig til að toppa snilldina sem orginallinn er.

Rounders (1998):


Þetta meistarastykki eftir meistarann John Dahl er mynd sem að ég er búinn að horfa allavegana 30 sinnum á og mun eflaust horfa á hana 30 sinnum aftur. Myndin fjallar um pókerspilarann og laganemann Mike McDermott (Matt Damon) sem að spilar poker til að sjá sér í gegnum laganámið en þegar gamall félagi hans að nafni Lester Murphy (Edward Norton(kallaður Worm)) losnar úr fangelsi þá fara vandræðin að rúlla í áttina að hetjunni okkar. Worm á nefnilega fullt af útistandandi spilaskuldum sem að Mike tekur á sig líka og neyðist til að byrja að spila poker aftur eftir að hafa lofað kærustunni sinni að gera það ekki. Eftir það fer allt að detta í sundur og hver veit hvernig þetta endar? Ég veit það en ég ætla ekki að segja ef einhver á eftir að sjá hana.

Leikurinn í myndinni er bara mjög góður og þá sérstaklega þykki hreimurinn hjá Teddy KGB (John Malkovich). Myndatakan er fín, ekkert sem er lélegt og heldur ekkert sem er out of this world. Í heildina virkilega skemmtileg mynd sem ég kann utan að en get alltaf horft á aftur.

American History X (1998):


Þessi mynd er eftir leikstjórann Tony Kaye en hann leikstýrði líka myndinni Lake of fire sem fjallar um fóstureyðingar og ég vil nota tækifærið og segja öllum að horfa á hana ef þið þorið, því hún er virkilega áhrifarík. En hann Tony fer mjög vel með vel skrifað handrit í American History X. Myndin fjallar um ungan nýnasista Derek Vinyard (Edward Norton) sem að lifir og hrærist í nýnasismanum þangað til að eitt kvöldið þá drepur hann 2 svarta menn og eftir það fer hann í fangelsi. Þegar hann kemur út er hann breyttur maður og berst harkalega gegn því að bróðir hans lendi í sömu vitleysu og hann gerði, en bróðir hans Danny Vinyard er nú þegar byrjaður að vinna sig upp í nýnasista klíkunni.

Edward Norton er einn uppáhalds leikarinn minn og ég dýrka hann í þessari mynd sem og rounders, hann fer frábærlega með hlutverk Dereks. Aðrir leikarar standa sig vel líka og dregur Tony Kaye upp góða mynd af aðstæðunum og ástæðunum sem leiðir fólk út í vitleysu eins og að ganga í klíku. Myndatakan í myndinni er mjög flott og er eflaust áhrifaríkasta senan að mínu mati, svart/hvíta senan þegar 3 svertingjar reyna að brjótast inn til Dereks en hann hleypur út og drepur þá.

Fight Club (1999):


Hvað get ég sagt um Fight Club sem er ekki augljóst fyrir alla sem hafa séð hana?? Hún er meistaraverk. Hún virðist vera um mann (Edward Norton), sem er óánægður með líf sitt, getur ekki sofið og fær útrás við að fara á hina ýmsu félagafundi eins og AA fundi og fundi fyrir menn með eistnakrabbamein, sem kynnist öðrum manni, sápugerðarmanninum Tyler Durden (Brad Pitt), í flugvél og eftir að íbúðin hans springur í loft upp þá stofna þeir saman neðanjarðar bardagaklúbb. Já þetta hljómar kannski flókið fyrir þá sem hafa ekki séð myndina en þetta er í raun einfalda útgáfan af henni þar sem ástarplottið með Marla Singer (Helena Bonham Carter) er ekki útlistað frekar en það sem er raunverulega í gangi með þetta allt saman. Ég ætla að vera góður við þá sem hafa ekki séð myndina og í staðinn fyrir að birta spoilera þá ætla ég að segja að ef þú hefur ekki séð myndina ennþá eftir 10 ár á markaðnum þá skaltu drífa í því núna og hringja svo í mig til að ræða plottið og snilldina sem hún er.

Myndinni er snilldarlega leikstýrt af David Fincher, sem dregur fram það besta úr handriti Jim Uhls, sem er byggt á skáldsögu eftir Chuck Palahniuk, og öllum leikurunum sem skila sínu einstaklega vel, kemur kannski ekki á óvart miðað við leikaravalið. Sérstakt shout out þarf þó að senda á Meat Loaf sem nær hlutverki hins ofurviðkvæma brjóstgóða krabbameinssjúklings Bob mjög vel. Myndatakan og myndvinnslan leggja áherslur á rétta staði og er sérstaklega skemmtilegt þegar IKEA vörulistinn er tekinn á íbúðina og allt er verðlagt þar inni. Niðurstaða: Meistaraverk sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

La vita é bella (1997):


Þessi ítalska snilld er klárlega ein af bestu myndum allra tíma. Þrátt fyrir að Óskarsverðlauna akademían hafi stolið af henni þeim titli og mjög ranglega sett hann í hendurnar á Shakespeare in Love sem er ein ofmetnasta mynd allra tíma, en það er ekki til umræðu hér. La vita é bella var leikstýrð af Roberto Benigni og hann, ásamt félaga sínum Vincenzo Cerami, skrifaði handritið og fór með aðalhlutverkið. Myndin fjallar um Guido, gyðing sem notar húmor til að vinna hug og hjarta konu sem hann verður ástfanginn af. Nokkrum árum seinna lendir fjölskyldan í seinni heimsstyrjöldinni og hann þarf að nota ímyndunaraflið til að tryggja öryggi sonar síns og að láta hann ekki vita hvað er raunverulega í gangi allt í kringum þá. Þessi óvenjulega flétta á mynd um seinni heimsstyrjöldina er það sem gerir hana svona góða. Hún er fyndin og alvarleg á sama tíma og ég get horft á hana aftur og aftur og aftur og alltaf hlegið jafnmikið.

Myndatakan er mjög viðeigandi fyrir myndina, ekkert rosalegt gert sem gæti tekið frá söguþræðinum. Allur leikur í myndinni er mjög góður, þrátt fyrir að Roberto Benigni sé klárlega bestur af þeim. Hans túlkun á ástandinu sem leikstjóri gefur því léttan blæ en heldur samt inni alvarleika málsins sem er ekki eitthvað sem hver sem er gæti gert. Bara snilld.

Out Cold (2001):


Out Cold er gamanmynd eftir leikstjórana Emmett og Brendan Malloy. Hún gerist í skíðabæ í Alaska við fjallið Bull Mountain. Þar búa allir "rauðhálsarnir" og una sáttir við sitt á skítugum börum, á fylleríi í brekkunum og búa við sínar eigin reglur. Það breytist svo allt þegar forríkur braskar að nafni John Majors (Lee Majors) ákveður að kaupa fjallið af eigandanum Ted Muntz (Willie Garson). Við fylgjum svo aðalpersónunni Rick Rambis (Jason London) þar sem að hann rís skjótt upp launastigann (vegna áhrifanna sem hann hafur meðal bæjarbúa) en vinir hans sitja eftir og neita að breyta lifnaðarháttum sínum fyrir einhvern ríkan aula. En eins og öllum bandarískum gamanmyndum sæmir þá er að sjálfsögðu ástarsaga flækt inn í þetta líka. Rick varð ástfanginn af franskri stelpu (Anna (Caroline Dhavernas)) þegar hann var í fríi í Mexico. Þau eyddu hverjum degi saman í 3 vikur en þegar þau ætluðu að fara saman á tveggja manna hjól þá kom hún aldrei. Það kemur síðan í ljós að hún er stjúpdóttir John Majors og þá hefst ástarplottið sem að mér fannst alltaf vera nokkuð gott og skildi ekkert afhverju. Það var einhvernveginn betur skrifað en restin af myndinni. Ég fattaði afhverju það var þegar við horfðum á Casablanca um daginn. Ástarplottið í out cold er nefninlega nákvæm eftirlíking af ástarplottinu í Casablanca! Samtalið sem á sér stað milli Luke (vinar ricks sem stendur við glymskratta) og Önnu þegar hún kemur í fyrsta sinn í skíðabæinn er nákvæmlega sama samtal og á sér stað í Casablanca, nema bara heimfært upp á nútímann. Þið sjáið hvað ég meina í meðfylgjandi klippu:



Annars þá er þessi mynd sú gamanmynd sem ég get horft á endalaust, mér finnst hún algjör snilld og mæli með því að allir horfi á hana að minnsta kosti einu sinni!


Saturday, October 31, 2009

Zombieland

Zombieland:

Jæja, ég skellti mér í bíó á Zombieland um daginn og verð bara að segja að hún kom mér líka svona skemmtilega á óvart. Myndin er eftir leikstjórann Ruben Fleischer sem að er nýr af nálinni og hefur ekki gert neitt sem að ég hef horft á en hann stendur sig líka svona vel í þessari mynd. Ég verð að segja að þegar ég sá trailerinn fyrir myndina fyrst þá hugsaði ég okei þetta er svona hlæ hlæ mynd með uppvakningum og prumpubröndurum en svo þegar ég fór á myndina þá kom bara allt annað í ljós.

Myndin fjallar um "Columbus" (Jesse Eisenberg) sem að er lúðalegur unglingur sem að reynir að komast af í heimi fullum af uppvakningum. Til þess hefur hann gert lista yfir reglur, sem eru margar hverjar stórskemmtilegar. Svo einn daginn á meðan hann er að reyna að koma sér til Columbus, Ohio, þá kynnist hann "Talahasse" (Woody Harrelson)en hann ver vægast sagt á kostum í þessari mynd. Talahasse er akkúrat andstæðan við Columbus, hann er nettur, hugrakkur, lifir ekki eftir neinum reglum og myndi gera hvað sem er fyrir "twinkie". Þeir tveir taka sig svo saman og ákveða að vera samferða eitthvað áleiðis, en þegar þeir stoppa til að byrgja sig upp af mat þá hitta þeir 2 harðar gellur sem að fyrir sýkinguna höfðu lifað á því að nota ýmis bellibrögð til að svindla á fólki. Þær "Witchita" (Emma Stone) og "Little Rock" (Abigail Breslin) hafa lítið breyst eftir að heimurinn fer til hundanna og því notfæra þær sér strákana 2 og skilja þá svo eftir.



Myndatakaner til fyrirmyndar, mikið er um virkilega flott slow motion skot og er introið allt skotið í slow mo og er það eiginlega bara virkilega flott. Förðunin ergeðveik í myndinni sem og allar brellur, frá byssuskotum og að fólki að borða fólk þá stenst þessi mynd allar væntingar. Og það er eiginlega bara virkilega nettur blær yfir myndinni. Tónlistin var mjög fín, ekkert til að hoppa upp og dansa fyrir en samt ekkert sem dró myndina niður.




Eftir að ég horfði á þessa mynd þá fór ég aðeins að spá í formúlunum fyrir þessum myndum og byrjaði að bera hana saman við myndir eins og Shaun of the dead og Dead snow og ég komst eiginlega að því að þetta uppvakningar og brandarar dæmi virkar bara fáránlega vel! Ég tengdi það fyrst eftir þessa mynd að ég elska þessa formúlu, ég get horft endalaust á Shaun of the dead, mér fannst Dead snow vera geðveik og svo núna fannst mér sjúklega gaman á Zombieland. Ég held að þessi mynd sé ekki sú síðasta sem gerð er eftir þessari formúlu og ég hlakka spenntur til að sjá hinar smávægilegu breytingar sem gerðar eru á hverri mynd sem að gerir hana frábrugðin hinum. Hvort sem það er aðstæðurnar (Dead Snow), Ólíklegur hópur eftirlifenda (Shaun of the dead) eða myndartakan (Zombieland) hvað sem það verður þá bíð ég spenntur eftir því :D

Í heildina frábær mynd, ekkert æðislegur né djúpur söguþráður, ekkert massíf persónuþróun en frábær mynd samt sem áður.



3.8 af 5 stjörnum

Saturday, October 10, 2009

RIFF - Gott kvöld

Eitt kvöldið þá fór ég með strákunum á tvær myndir, fyrri myndin var hin umtalaða Antichrist en sú seinni var hin aðeins minna umtalaða Dead Snow.

Antichrist:



ATH: Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja þannig að ég ætla bara að skrifa allt sem ég hugsa og ef það kemur út sem chaos þá biðst ég afsökunnar en ég held að það sé eina leiðin til að tjá skriflega hvað mér fannst um þessa mynd.

Antichrist er mynd eftir leikstjóran Lars Von Trier og hún fjallar um mann og konu en þau bera engin nöfn í myndinni og eru einfaldlega titluð sem He og She. Myndin er semsagt um það hvernig konan tekur á því að hafa misst litla strákinn sinn sem að deyr af slysförum í upphafi myndarinnar. Ég ætla ekki að tala mikið um söguþráðinn í myndinni heldur ætla ég frekar að tala um myndina í heild sinni.

Upphafssenan í myndinni eru sennilega bestu 4-8 mínútur af kvikmynd sem ég hef séð. Blái tónninn yfir myndinni, tónlistin, slow motion og skotin spiluðu svo vel saman að þetta var eins og að horfa á sinfóníu og sjá tónlistina. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu mér fannst þetta svo töff. Vá, sko... Þegar ég hugsa svo til baka og renni atriðinu í gegnum hausinn á mér þá voru fullt af litlum smáatriðum í upphafssenunni sem gáfu til kynna hvað væri mikilvægt seinna í myndinni, eins og stytturnar þrjár á borðinu. Ég hefði viljað vera viðstaddur þegar þetta atriði var tekið upp til að sjá hvernig Lars Von Trier tókst að gera svona magnaða senu.

Restin af myndinni innihélt stórfurðulegan en magnaðan söguþráð og þegar ég hugsa til baka þá finnst mér hann geðveikur í augnablikinu en ég er búinn að flakka á milli skoðana eins og sínusbylgja.

Skotin þar sem konan er að ímynda sér það að hún sé að labba í skóginum eru ein þau áhrifamestu og flottustu sem ég hef séð. Á meðan ég er að skrifa um þessa mynd þá rennur það upp fyrir mér að þetta var meira listaverk frekar en kvikmynd. Mikilvæg atriði fyrir söguþráðinn drukkna einfaldlega í fegurð hinna ýmsu skota.

Ég veit ekki hvað ég á að segja, leikurinn í myndinni var góður, það er það eina sem ég er viss um. Þegar ég labbaði út úr bíósalnum þá vissi ég ekki alveg hvað hafði gerst þarna inni, ég vissi ekki alveg hvað mér fannst um það og ég gat ekki ákveðið mig hvort að þetta væri mesta meistaraverk kvimyndasögunnar eða algjört drasl. En eins og Siggi Palli sagði: "Þú getur huggað þig við það að einhversstaðar situr Lars Von Trier núna og hlær"

Ég myndi segja að það væri skylda allra að sjá þessa mynd. Ekki af því að hún er geðveik heldur bara til að heyra fleiri skoðanir, ef þið getið myndað ykkur skoðun á henni (sem ég get ekki).

X stjörnur af 5 mögulegum... sjáum til eftir nokkra daga hvað mér finnst þá, og svo aftur nokkra daga eftir það...

Dead Snow:



Okei úr mesta mindfucki sem ég veit um og yfir í basic stuff. Dead Snow er mynd eftir leikstjórann Tommy Wirkola og fjallar um hóp af læknanemum sem að fara í fyllerísferð upp í fjallaskála.... Og svo eru Nasista uppvakningar... þarf ég að segja meira? Myndinni tekst mjög vel að vera það sem hún á að vera, skemmtileg. Hún er ekki ógeðslega scary, hún er ekki ógeðslega vel leikin og umfram allt hún er ekki RWWM. En maður kemst varla hjá því að bera þessar tvær myndir saman og í þeim bardaga vinnur Dead Snow með rothöggi í fyrstu lotu.

Ég persónulega hló upphátt þegar gamli creepy kallin fór að tala um gyðingagullið en það gæti bara verið útaf því að ég horfi of mikið á south park. En semsagt söguþráðurinn er þannig að þessir læknanemar fara upp í fjallaskálann til að skemmta sér en þau byrja að hafa áhyggjur þegar kærasta eins gaursins (sem ætlaði að skíða að skálanum) lætur ekki sjá sig. Um kvöldið kemur síðan creepy gamall kall í heimsókn og fer að vara þau við fjallinu og segir þeim söguna um Nasistaherforingjann og hermenn hans sem voru hraknir af bæjarbúum upp í fjöllin eftir að Þýskaland missti tak sitt yfir staðnum. En áður en þeir fóru þá rændu þeir fullt af gyðingagulli og verðmætum og tóku með sér. Nú geta þeir ekki hvílst í friði fyrr en að allt gyðingagullið er komið aftur í þeirra hendur.

Í heildina tekst myndinn mjög vel upp og minnti hún mig mikið á Shaun of the dead, þá sérstaklega senan þegar þeir eru að ná í vopnin inn í skúrnum. Snöggar klippingar af flestum hreyfingum og svo vítt skot á báða aðila með vopnin. Þessi sena er eiginlega nákvæm eftirlíking á því þegar Shaun og Ed fara og ná í vopn út í skúr í shaun of the dead og er þessi stíll einkennandi fyrir myndirnar hans Simon Pegg og ég giska á að Tommy Wirkola hafi séð hana og fílað þetta.

3 af 5 stjörnum fyrir vel heppnaða og skemmtilega splattermynd.

Riff Atburður - Rocky Horror

Rocky horror picture show!



Þegar ég komst að því að þessi stórepíska mynd yrði sýnd á RIFF þá varð ég strax frekar spenntur. Þegar ég komst svo að því að það væri eiginlega uppselt á hana þá varð ég strax frekar stressaður. Þegar ég náði síðan að kaupa miða á hana þá varð ég strax frekar ánægður. Þessi mynd hefur lengi verið ein af mínum uppáhalds söngleikjamyndum og mig hefur alltaf langað til að sjá hana í bíó. Sú löngun magnaðist mikið núna fyrir stuttu eftir að mamma mín sagði mér frá því að hún hefði farið á singalon sýningu úti í Dallas á sínum tíma þar sem fólk mætti í búningum og með leikmuni.

Svo var loksins komið að því ég var að fara að sjá þessa mynd í bíó. Ég og mamma mættum í Háskólabíó á skikkanlegum tíma og náðum okkur í aukahluti sem að allir fengu til að hafa með myndinni. Hrísgrjón til að kasta upp í loftið í brúðkaupssenunni, dagblöð til að skýla manni frá rigningunni (og það voru gæjar efst í salnum að skvetta vatni yfir alla), partýhatta til að setja upp í "timewarp" partýinu, klósettpappír til að henda í hinn leiðinlega Dr. Everett Scott og margt fleira. Ég varð spenntari með mínútunni. En svo fóru að líða of margar mínútur, það var komin löng röð fyrir utan salinn og klukkan var orðin 11, og svo 11:15 og svo 11:30 og enginn vissi hvað var í gangi. En svo opnuðust dyrnar og pirringurinn vék fyrir spennunni. Eftir að allir höfðu sest (og það kom í ljós að of margir miðar höfðu verið seldir) þá kom stelpa klædd sem Little Nell uppá sviðið og bauð alla velkomna og myndin fór í gang.



Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í salnum þegar rauðu varirnar birtust á svarta bakgrunninum og svo byrjaði söngurinn. Og hann hætti ekki, nema til að víkja fyrir fagnaðarlátum, þangað til að myndin var búin. Strax að loknu introinu kom fyrsta prop atriðið, brúðkaupið, og allt í einu var allur salurinn út í hrísgrjónum. Svo hélt myndin áfram senu eftir senu og allir sungu með hverju lagi og töluðu með öllum samtölum. Þegar var svo komið að partýinu þá fylltist sviðið fyrir framan hvíta tjaldið af dönsurum og leikurum í búningum og allur salurinn stóð upp og dansaði "the timewarp"

-It's just a jump to the left-
-And a step to the riiiiight-
-Put your hands on your hips-
-and tuck your knees in tiiiight-
-then it's the pelvic thruuuust, that really drives you insaaaaaane-
-Let's do the timewarp again-
-Let's do the timewarp again-



og þegar Tim Curry a.k.a Dr. Frank-N-Furter kom niður í lyftunni trylltist salurinn. Eftir party atriðið var sviðið rýmt og myndin hélt áfram með tilheyrandi söng og dans stemmara og fyrir minn hlut þá var þetta ein skemmtilegasta kvöldstund sem ég hef átt í bíó!



En þá um myndina:

Rocky Horror (1975) er mynd eftir leikstjórann Jim Sharman og fjallar um verðandi hjónin Brad Majors (Barry Bostwick) og Janet Weiss (Susan Sarandon) sem að leita hjálpar í stórum kastala eftir að það springur dekk á bílnum þeirra. Þegar þau baka uppá kemur Riff Raff, a handyman (Richard O'Brien) og býður þeim inn til að hringja. En það verður ekki svo auðvelt að fá að hringja eitt símtal. Parið dregst inn í party hjá "húsbóndanum", sem er brjálaður, tvíkynhneigður og stórsnjall vísindamaður og klæðskiptingur að nafni Dr. Frank-N-Furter (Tim Curry, sem fer algjörlega á kostum í þessu hlutverki).Eftir það fer af stað vægast sagt stórskrýtin atburðarrás með innskotum frá sögumanninum (The Criminologist - An Expert (Charles Gray)), sem að ég ætla ekki að spoila hérna.

Tónlistin í myndinni er æðisleg, lögin eru skemmtileg, full af háði og grípandi og þig langar voða lítið annað en að hlusta á þau aftur og læra þau til þess eins að geta sungið með næst þegar þú horfir á myndina.

Leikurinn í myndinni er afbragð. Tim Curry nær að fanga geðbilunina í Frank-N-Furter á tranepískan hátt og fer hann vægast sagt á kostum í þessari mynd. Barry Bostwick nær vandræðaleikanum hjá Brad Majors æðislega vel og Susan Sarandon lætur alla trúa að Janet Weiss sé svo saklaus og hrein að hún hafi ekki einu sinni hugsað eina ljóta hugsun yfir ævina. Aðrar persónur eins og Little Nell, Magentha, Riff Raff, Meatloaf og Rocky eru líka leiknar snilldarlega, þá sérstakleg stórfurðulega sambandið milli Riff Raff og Magenthu. Persónuþróunin í myndinni er líka mjög mikil og það liggur við að þú sjáir breytingu á hverri persónu með mínútu fresti, það gerir myndina trúverðuga á þann hátt að ef þú værir fastur í kastala með kærustunni þinni hjá brjáluðum klæðskipting sem er nýbúinn aðbúa til mann úr engu og sem syngur lög með reglulegu millibili þá myndi þetta gerast svona.



Myndartakan er líka góð eins og flestallir aðrir hlutir í myndinni, ekkert sem að sker í augun né neitt sem skarar hrikalega mikið fram úr. Tæknibrellurnar í myndinni eru hlægilegar í dag en voru barn síns tíma. Sviðsmyndin er æðislega steikt og gefur myndinni þennan skemmtilega karakter sem einkennir hana ásamt búningunum.

Ég veit varla hvað ég á að segja meira um þessa mynd. Ég er nokkuð viss um að skoðun min á henni hafi komið greinilega fram í blogginu þannig að ég ætla ekki að eyða óþarfa orðum í hana hér. Það er þá bara ekkert eftir en stjörnugjöf. 4 af 5 mögulegum.

Thursday, September 24, 2009

RIFF Blogg

Ég fór á 2 myndir í gær á RIFF og það er á planinu að fara á nokkrar í dag og svona. En myndirnar sem ég fór á voru þær Prodigal Sons og Kelin.



Prodigal Sons er heimildarmynd eftir leikstýruna/stjórann Kimberly Reed og fjallar um ríginn á milli hennar óg bróður hennar Marc. Þetta eru engar venjulegar systkinaerjur eins og mörg okkar kannast við heldur eru aðstæðurnar frekar mikið öðruvísi. Hún Kimberly (fyrrum þekkt sem Todd) var aðalmaðurinn í High school, hún var fyrirliði ruðningsliðsins og átti kærustur en það var ekki allt í lagi í draumalandi þar sem að hún var í vitlausum líkama. Todd var ekki sá sem hún átti að vera og á endanum þá flutti hún burt frá heimabæ sínum í Montana og fór í kynskiptiaðgerð. Aðstæðurnar hjá bróður hennar eru heldur ekki eins og best er á kosið því að hann lenti í bílslysi 21 árs gamall og hlaut við það heilaskaða. Eftir það fór hann að fá flog og þurfti á endanum að fjarlægja hluta af heilanum á honum og það orsakaði miklar skapsveiflur. Mikil ósætti ríktu á milli Marc og Kim og snýst myndin í rauninni um þrjá hluti: Lausn á vandamálunum á milli Marc og Kim, ástand Marcs og kynskiptiaðgerðina sem Kim fór í og hvernig hún tókst á við allt það sem fylgdi henni. Þessi mynd er mjög áhrifarík og hún kynnir manni fyrir mjög öfgafullum aðstæðum og maður kemst varla hjá því að finna til samúðar með bæði Kim og Marc. Maður vorkennir Marc útaf ástandinu sem hann er í og maður vorkennir Kim útaf því að sama hvað hún reynir mikið að bæta samband sitt við Marc þá virðist það ekkert ganga því þegar hann fer í brjálæðiskast þá breytist hann í eitthvað annað en hann er. Í heildina mjög góð og áhrifarík mynd og ég mæli algjörlega með henni.

FANN ENGA MYND :(

Kelin er já..... mynd eftir Ermek Tursunov og er já.... sérstök að mörgu leiti. Það er ekkert talað í myndinni heldur er bara öskur og stunur sem gefur myndinni já... ákveðinn blæ. Myndin fjallar um unga konu sem að fer að heiman til að búa með eiginmanni sínum ( sem hún var neydd til að giftast), yngri bróðir hans og gamalli móður hans. Svo er hérna söguþráðurinn í myndinni einfaldaður fyrir ykkur.. VARÚÐ SPOILERAR

Kona giftist manni. Maður sefur hjá konu útí skógi. Maður kemur heim með konu. Maður og kona sofa saman á meðan litli bróðir stundar sjálfsfróun yfir stunum. Maður fer út að ná í eldivið. Maður er drepinn af öðrum manni. Mamman fer með galdraþulu. Kona sefur hjá litla bróður mannsins. Kona sefur hjá hinum manninum (sem drap eiginmanninn hennar). Litli bróðir mannsins sefur hjá geit. Kona verður ólétt. Mamma fer með galdraþulu og tekur af henni hárið. Hinn maðurinn kemur og sækir hana. Litli bróðir mannsins reynir að drepa hann en deyr sjálfur. Mamman kemur af stað snjóflóði og drepur hinn manninn en konan sleppur. Konan kemur aftur heim til Mömmunnar. Mamman þekkir hana ekki og reynir að kyrkja hana. Konan fæðir barn og mamman gefur henni vúdú prikið sitt og labbar út. Úlfar spangóla (og við getum dregið þá ályktun að mamman hafi farið til að deyja). Endir

Já.... þessi mynd var... spes :) Voða lítið annað hægt að segja.
En stefnan er sett á Rocky Horror í kvöld ég veit ekki alveg hvort að ég eigi að þora að biðja Kimberly Reed um búningaráð en hún ætti nú að kannast við það að klæða sig upp sem meðlimur af hinu kyninu. En við sjáum til. Ég hlakka allavega mjög mikið til að sjá þessa mynd í bíó enda er þetta ein af mínum uppáhalds söngmyndum og þar sem að mamma mín elskar hana svona mikið líka þá keypti ég einn miða handa henni. Fjölskyldubonding time í kvöld :D

Wednesday, September 23, 2009

District 9

District 9


Ég ætla að byrja á að skella inn treiler fyrir ykkur:


Jæja, eftir langa bið og mikla eftirvæntingu þá skellti ég mér loksins á District 9 í bíó. Ég mætti í bíóið í hasargírnum og tilbúinn í 2 tíma af byssubardögum á milli manna og geimvera. Ég fer inn í salinn og sest á brúnina á sætinu og svo loksins byrjar myndin. Og þá er þetta bara eitthvað heimildarmynd, eitthvað viðtal við einhvern vandræðalegan gæja sem að talaði með skrýtnum hreim. Þarna fór ég að hugsa: hmm.... hvað er í gangi? En ég ákvað að halda opnum huga og beina athyglinni frekar að myndinni heldur en stelpunni við hliðina á mér og GUÐ hvað ég er feginn! Þegar ég lýt til baka núna á myndina sem heild þá verð ég að segja að þessi heimildarmynda stíll sem að myndin var í var tær snilld. Ég sem fór þarna inn og bjóst við einhverju stanslausu og hardcore stríði í tvo tíma sem að skilur ekkert eftir sig nema awesome fílíng í hausnum á strákum en þegar ég gekk út þá sat svo miklu, miklu meira eftir.

Það að ég bjóst við þessari standard Hollywood sci-fi mynd gerði upplifunina svo miklu skemmtilegri því að myndin er gerólík því sem við eigum að venjast. Myndin gerist í Jóhannesborg í Suður Afríku 20 árum eftir að geimverur lentu á jörðinni. Þegar fyrstu kynnum var náð voru geimverurnar vannærðar og í skelfilegu ástandi. Mannfólkið tók sig því til og bjó til búðir fyrir „rækjurnar“(eins og þær eru kallaðar) þar sem þær fengu mat og læknisaðstoð. Núna 20 árum seinna hafa þessar búðir breyst í einangrað fátækrahverfi sem kallast District 9 og eftir að glæpum fer að fjölga hjá geimverunum þá eru þær ekki lengur velkomnar. Þarna setur leikstjórinn Neil Blomkamp upp fordómana sem að eru ríkjandi gegn þeim sem lifa í fátækrahverfum Suður-Afríku upp á áhugaverðan hátt sem að fær mann til að hugsa. Neil Blomkamp gerir þarna í frumraun sinni raunsæa sci-fi mynd sem að er uppfull af ádeilum á nútímasamfélag. Með þessari mynd er hann meðal annars að færa rök fyrir því að það skipti ekki máli af hvaða kynþætti eða tegund þú ert að þar sem er fátækt eru glæpir.

Myndatakan í myndinni var afbragð og það er nokkuð ljóst að Peter Jackson kann að velja sér lærlinga. Neil Blomkamp notaði þessar 30 milljónir, sem að Peter Jackson gaf honum til að framleiða hvaða mynd sem hann vildi, afbragðsvel og við sjáum vonandi meira frá honum sem fyrst.

Annar kostur við myndina að mínu mati er það að það var ekki eitt ofnotað Hollywood andlit í myndinni og sú staðreynd að hvert einasta óþekkta andlitið skilaði góðri frammistöðu. Sérstaklega Sharlto Copley sem lék aðalhlutverkið (Wikus Van De Merwe). Geimverurnar skiluðu líka sínu og voru frábærlega vel gerðar. Svipbrigðin á þeim létu mann meira að segja stundum finna til samúðar með þeim en það er eitthvað sem ég hef ekki séð frá því að ég sá Gollum í LOTR. Tónlistin í myndinn er líka fín en ekkert það spes að ég vil fara og kaupa soundtrackið en hún þjónar sínum tilgangi vel

EN.... já það er alltaf en. Þessi mynd var ekki fullkomin, langt því frá. Hún hafði í rauninni það mikið af göllum að ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir að hafa velt henni í gegnum hausinn á mér nokkrum sinnum. Jújú góð mynd, öðruvísi og ágætis afþreying en hún er svolítið uppblásin.

NÚNA KOMA SPOILERAR EKKI LESA ÁFRAM NEMA AÐ ÞIÐ HAFIÐ SÉÐ MYNDINA



Þrátt fyrir að flæði myndarinnar hafi verið það gott að sagan virtist vera heilsteypt og meika fullkomið sense þá koma nokkrar holur í plottinu í ljós þegar maður fer virkilega að velta því fyrir sér.

1. Geimverurnar eru búnar að búa þarna í 20 ár og það virðist sem svo að mannfólkið hafi varla átt samskipti við þau enda eru þær lokaðar inn í fátækrahverfi og hafa ekkert blandast almennu samfélagi en samt skilur mannfólkið þeirra klik klik tungumál og geimverurnar skilja ensku

2. Aðalrækjan er búin að eyða 20 árum í að finna einhvern vökva til að búa til eldsneyti fyrir geimskipið (sem að svífur samt einhvernvegin yfir D9 í 20 ár) og svo loksins þegar hún finnur hann og býr til eldsneytið þá sullar Wikus helmingnum yfir sig en samt er þetta nóg til að koma skipinu heim. Rækjan segir meira að segja í myndinni að hún verði að fljúga hratt heim til að klára ekki eldsneytið en skv. öllu þá þýðir meiri inngjöf meiri nýting á eldsneyti.

3. Afhverju í fjandanum breytist Wikus í geimveru við það að sulla yfir sig bensíni??

4. Litla skipið sem að þau nota til að koma sér uppí móðurskipið féll til jarðar þegar rækjurnar lentu. Sá ENGINN hvar það lenti áður en það var byggt yfir svæðið?

5. Litla rækjubarnið sem að aðalrækjan átti kveikir á dráttargeisla í móðurskipinu úr litla skipinu sem að dregur litla skipið upp í móðurskipið (vá skrýtin setning en okei) Afhverju þurftu þeir þá eldsneyti til að fljúga á litla skipinu upp í móðurskipið? (sérstaklega þar sem hann setur aldrei bensín á stóra skipið)

6. Til að ná fyrstu kynnum við geimverurnar þá boruðu mennirnir stórar holur í skipið til að komast inn í það. Hvernig er ennþá hægt að fljúga á milli sólkerfa í þessu skipi?

7. 1.8 milljónir rækja og það er ein sem hefur nóg vit í kollinum til að gera við eitthvað af þessu dóti. Hvernig getur það verið að heill geimverukynþáttur sé svona heimskur en samt hafi þeim tekist að búa til skip sem kemst fram og til baka á milli vetrarbrauta á 3 árum?

8. Í einu atriði þá er Wikus og aðalrækjan með tvær geimverubyssur og sigra bara heilan her af þjálfuðum hermönnum. Sem og í lokin þegar Wikus er að berjast í stríðstækinu þá rústar hann bara heilli hersveit án þess að hafa nokkurntíman notað svona vopn áður. Afhverju hafa geimverurnar ekki notað eitthvað af þessum vopnum á þeim 20 árum sem mannfólkið hefur haft þær lokaðar inni í fátækrahverfi og kúgað þær og misnotað? Og það er ekki hægt að segja að þær séu friðsamar verur því að glæpatíðnin er mjög há í D9

9. Þegar Wikus reynir að fljúga litla geimskipinu upp í móðurskipið (án þess að hafa nokkurn tíman flogið geimskipi þá tekst honum það afarvel) þá er það skotið niður með eldflaug en þegar dráttargeislinn er að draga það upp þá er ekkert gert til að stöðva það.

Þetta eru svona helstu holurnar sem að ég tók eftir þegar ég fór að spá í myndinni daginn eftir en það eru nokkrar í viðbót sem að ég er búinn að sjá og taka eftir eftir að hafa lesið um myndina aðeins á netinu.

Annað sem fór í taugarnar á mér var þróunin á persónunum. Hún var engin.... jú smá hjá Wikus en annars voru öll tilfinningarleg tengsl yfirborðskennd og grunn og skildu ekkert eftir sig. Þetta var það eina sem að ég tók eftir á meðan ég var að horfa á myndina og þetta fór smá í taugarnar á mér.

HÉRNA ENDA SPOILERAR OG KEMUR NIÐURLAG

Okei, myndin hafði slatta af göllum en það að ég tók ekki eftir þeim fyrr en að hafa pælt virkilega mikið í myndinni á mjög gagnrýninn hátt og það að ég fór útúr bíóinu mjög sáttur með myndina og fannst hún æðisleg segir alveg sitt. Þessi mynd var mjög fín skulum við segja. Hún var öðruvísi en ég bjóst við og kom skemmtilega á óvart með ádeilunum. Í heildina góð mynd en það er margt sem mætti betur fara. Ég vona samt að sci-fi kvikmyndagerðarmenn taki þessa mynd til fyrirmyndar að hluta til því að það sem var gert nýtt í þessari mynd var gert mjög vel.

3 stjörnur af 5 mögulegum hjá mér, góð mynd en hefði getað verið betri með aðeins meiri vinnu.