Saturday, October 31, 2009

Zombieland

Zombieland:

Jæja, ég skellti mér í bíó á Zombieland um daginn og verð bara að segja að hún kom mér líka svona skemmtilega á óvart. Myndin er eftir leikstjórann Ruben Fleischer sem að er nýr af nálinni og hefur ekki gert neitt sem að ég hef horft á en hann stendur sig líka svona vel í þessari mynd. Ég verð að segja að þegar ég sá trailerinn fyrir myndina fyrst þá hugsaði ég okei þetta er svona hlæ hlæ mynd með uppvakningum og prumpubröndurum en svo þegar ég fór á myndina þá kom bara allt annað í ljós.

Myndin fjallar um "Columbus" (Jesse Eisenberg) sem að er lúðalegur unglingur sem að reynir að komast af í heimi fullum af uppvakningum. Til þess hefur hann gert lista yfir reglur, sem eru margar hverjar stórskemmtilegar. Svo einn daginn á meðan hann er að reyna að koma sér til Columbus, Ohio, þá kynnist hann "Talahasse" (Woody Harrelson)en hann ver vægast sagt á kostum í þessari mynd. Talahasse er akkúrat andstæðan við Columbus, hann er nettur, hugrakkur, lifir ekki eftir neinum reglum og myndi gera hvað sem er fyrir "twinkie". Þeir tveir taka sig svo saman og ákveða að vera samferða eitthvað áleiðis, en þegar þeir stoppa til að byrgja sig upp af mat þá hitta þeir 2 harðar gellur sem að fyrir sýkinguna höfðu lifað á því að nota ýmis bellibrögð til að svindla á fólki. Þær "Witchita" (Emma Stone) og "Little Rock" (Abigail Breslin) hafa lítið breyst eftir að heimurinn fer til hundanna og því notfæra þær sér strákana 2 og skilja þá svo eftir.



Myndatakaner til fyrirmyndar, mikið er um virkilega flott slow motion skot og er introið allt skotið í slow mo og er það eiginlega bara virkilega flott. Förðunin ergeðveik í myndinni sem og allar brellur, frá byssuskotum og að fólki að borða fólk þá stenst þessi mynd allar væntingar. Og það er eiginlega bara virkilega nettur blær yfir myndinni. Tónlistin var mjög fín, ekkert til að hoppa upp og dansa fyrir en samt ekkert sem dró myndina niður.




Eftir að ég horfði á þessa mynd þá fór ég aðeins að spá í formúlunum fyrir þessum myndum og byrjaði að bera hana saman við myndir eins og Shaun of the dead og Dead snow og ég komst eiginlega að því að þetta uppvakningar og brandarar dæmi virkar bara fáránlega vel! Ég tengdi það fyrst eftir þessa mynd að ég elska þessa formúlu, ég get horft endalaust á Shaun of the dead, mér fannst Dead snow vera geðveik og svo núna fannst mér sjúklega gaman á Zombieland. Ég held að þessi mynd sé ekki sú síðasta sem gerð er eftir þessari formúlu og ég hlakka spenntur til að sjá hinar smávægilegu breytingar sem gerðar eru á hverri mynd sem að gerir hana frábrugðin hinum. Hvort sem það er aðstæðurnar (Dead Snow), Ólíklegur hópur eftirlifenda (Shaun of the dead) eða myndartakan (Zombieland) hvað sem það verður þá bíð ég spenntur eftir því :D

Í heildina frábær mynd, ekkert æðislegur né djúpur söguþráður, ekkert massíf persónuþróun en frábær mynd samt sem áður.



3.8 af 5 stjörnum

Saturday, October 10, 2009

RIFF - Gott kvöld

Eitt kvöldið þá fór ég með strákunum á tvær myndir, fyrri myndin var hin umtalaða Antichrist en sú seinni var hin aðeins minna umtalaða Dead Snow.

Antichrist:



ATH: Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja þannig að ég ætla bara að skrifa allt sem ég hugsa og ef það kemur út sem chaos þá biðst ég afsökunnar en ég held að það sé eina leiðin til að tjá skriflega hvað mér fannst um þessa mynd.

Antichrist er mynd eftir leikstjóran Lars Von Trier og hún fjallar um mann og konu en þau bera engin nöfn í myndinni og eru einfaldlega titluð sem He og She. Myndin er semsagt um það hvernig konan tekur á því að hafa misst litla strákinn sinn sem að deyr af slysförum í upphafi myndarinnar. Ég ætla ekki að tala mikið um söguþráðinn í myndinni heldur ætla ég frekar að tala um myndina í heild sinni.

Upphafssenan í myndinni eru sennilega bestu 4-8 mínútur af kvikmynd sem ég hef séð. Blái tónninn yfir myndinni, tónlistin, slow motion og skotin spiluðu svo vel saman að þetta var eins og að horfa á sinfóníu og sjá tónlistina. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu mér fannst þetta svo töff. Vá, sko... Þegar ég hugsa svo til baka og renni atriðinu í gegnum hausinn á mér þá voru fullt af litlum smáatriðum í upphafssenunni sem gáfu til kynna hvað væri mikilvægt seinna í myndinni, eins og stytturnar þrjár á borðinu. Ég hefði viljað vera viðstaddur þegar þetta atriði var tekið upp til að sjá hvernig Lars Von Trier tókst að gera svona magnaða senu.

Restin af myndinni innihélt stórfurðulegan en magnaðan söguþráð og þegar ég hugsa til baka þá finnst mér hann geðveikur í augnablikinu en ég er búinn að flakka á milli skoðana eins og sínusbylgja.

Skotin þar sem konan er að ímynda sér það að hún sé að labba í skóginum eru ein þau áhrifamestu og flottustu sem ég hef séð. Á meðan ég er að skrifa um þessa mynd þá rennur það upp fyrir mér að þetta var meira listaverk frekar en kvikmynd. Mikilvæg atriði fyrir söguþráðinn drukkna einfaldlega í fegurð hinna ýmsu skota.

Ég veit ekki hvað ég á að segja, leikurinn í myndinni var góður, það er það eina sem ég er viss um. Þegar ég labbaði út úr bíósalnum þá vissi ég ekki alveg hvað hafði gerst þarna inni, ég vissi ekki alveg hvað mér fannst um það og ég gat ekki ákveðið mig hvort að þetta væri mesta meistaraverk kvimyndasögunnar eða algjört drasl. En eins og Siggi Palli sagði: "Þú getur huggað þig við það að einhversstaðar situr Lars Von Trier núna og hlær"

Ég myndi segja að það væri skylda allra að sjá þessa mynd. Ekki af því að hún er geðveik heldur bara til að heyra fleiri skoðanir, ef þið getið myndað ykkur skoðun á henni (sem ég get ekki).

X stjörnur af 5 mögulegum... sjáum til eftir nokkra daga hvað mér finnst þá, og svo aftur nokkra daga eftir það...

Dead Snow:



Okei úr mesta mindfucki sem ég veit um og yfir í basic stuff. Dead Snow er mynd eftir leikstjórann Tommy Wirkola og fjallar um hóp af læknanemum sem að fara í fyllerísferð upp í fjallaskála.... Og svo eru Nasista uppvakningar... þarf ég að segja meira? Myndinni tekst mjög vel að vera það sem hún á að vera, skemmtileg. Hún er ekki ógeðslega scary, hún er ekki ógeðslega vel leikin og umfram allt hún er ekki RWWM. En maður kemst varla hjá því að bera þessar tvær myndir saman og í þeim bardaga vinnur Dead Snow með rothöggi í fyrstu lotu.

Ég persónulega hló upphátt þegar gamli creepy kallin fór að tala um gyðingagullið en það gæti bara verið útaf því að ég horfi of mikið á south park. En semsagt söguþráðurinn er þannig að þessir læknanemar fara upp í fjallaskálann til að skemmta sér en þau byrja að hafa áhyggjur þegar kærasta eins gaursins (sem ætlaði að skíða að skálanum) lætur ekki sjá sig. Um kvöldið kemur síðan creepy gamall kall í heimsókn og fer að vara þau við fjallinu og segir þeim söguna um Nasistaherforingjann og hermenn hans sem voru hraknir af bæjarbúum upp í fjöllin eftir að Þýskaland missti tak sitt yfir staðnum. En áður en þeir fóru þá rændu þeir fullt af gyðingagulli og verðmætum og tóku með sér. Nú geta þeir ekki hvílst í friði fyrr en að allt gyðingagullið er komið aftur í þeirra hendur.

Í heildina tekst myndinn mjög vel upp og minnti hún mig mikið á Shaun of the dead, þá sérstaklega senan þegar þeir eru að ná í vopnin inn í skúrnum. Snöggar klippingar af flestum hreyfingum og svo vítt skot á báða aðila með vopnin. Þessi sena er eiginlega nákvæm eftirlíking á því þegar Shaun og Ed fara og ná í vopn út í skúr í shaun of the dead og er þessi stíll einkennandi fyrir myndirnar hans Simon Pegg og ég giska á að Tommy Wirkola hafi séð hana og fílað þetta.

3 af 5 stjörnum fyrir vel heppnaða og skemmtilega splattermynd.

Riff Atburður - Rocky Horror

Rocky horror picture show!



Þegar ég komst að því að þessi stórepíska mynd yrði sýnd á RIFF þá varð ég strax frekar spenntur. Þegar ég komst svo að því að það væri eiginlega uppselt á hana þá varð ég strax frekar stressaður. Þegar ég náði síðan að kaupa miða á hana þá varð ég strax frekar ánægður. Þessi mynd hefur lengi verið ein af mínum uppáhalds söngleikjamyndum og mig hefur alltaf langað til að sjá hana í bíó. Sú löngun magnaðist mikið núna fyrir stuttu eftir að mamma mín sagði mér frá því að hún hefði farið á singalon sýningu úti í Dallas á sínum tíma þar sem fólk mætti í búningum og með leikmuni.

Svo var loksins komið að því ég var að fara að sjá þessa mynd í bíó. Ég og mamma mættum í Háskólabíó á skikkanlegum tíma og náðum okkur í aukahluti sem að allir fengu til að hafa með myndinni. Hrísgrjón til að kasta upp í loftið í brúðkaupssenunni, dagblöð til að skýla manni frá rigningunni (og það voru gæjar efst í salnum að skvetta vatni yfir alla), partýhatta til að setja upp í "timewarp" partýinu, klósettpappír til að henda í hinn leiðinlega Dr. Everett Scott og margt fleira. Ég varð spenntari með mínútunni. En svo fóru að líða of margar mínútur, það var komin löng röð fyrir utan salinn og klukkan var orðin 11, og svo 11:15 og svo 11:30 og enginn vissi hvað var í gangi. En svo opnuðust dyrnar og pirringurinn vék fyrir spennunni. Eftir að allir höfðu sest (og það kom í ljós að of margir miðar höfðu verið seldir) þá kom stelpa klædd sem Little Nell uppá sviðið og bauð alla velkomna og myndin fór í gang.



Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í salnum þegar rauðu varirnar birtust á svarta bakgrunninum og svo byrjaði söngurinn. Og hann hætti ekki, nema til að víkja fyrir fagnaðarlátum, þangað til að myndin var búin. Strax að loknu introinu kom fyrsta prop atriðið, brúðkaupið, og allt í einu var allur salurinn út í hrísgrjónum. Svo hélt myndin áfram senu eftir senu og allir sungu með hverju lagi og töluðu með öllum samtölum. Þegar var svo komið að partýinu þá fylltist sviðið fyrir framan hvíta tjaldið af dönsurum og leikurum í búningum og allur salurinn stóð upp og dansaði "the timewarp"

-It's just a jump to the left-
-And a step to the riiiiight-
-Put your hands on your hips-
-and tuck your knees in tiiiight-
-then it's the pelvic thruuuust, that really drives you insaaaaaane-
-Let's do the timewarp again-
-Let's do the timewarp again-



og þegar Tim Curry a.k.a Dr. Frank-N-Furter kom niður í lyftunni trylltist salurinn. Eftir party atriðið var sviðið rýmt og myndin hélt áfram með tilheyrandi söng og dans stemmara og fyrir minn hlut þá var þetta ein skemmtilegasta kvöldstund sem ég hef átt í bíó!



En þá um myndina:

Rocky Horror (1975) er mynd eftir leikstjórann Jim Sharman og fjallar um verðandi hjónin Brad Majors (Barry Bostwick) og Janet Weiss (Susan Sarandon) sem að leita hjálpar í stórum kastala eftir að það springur dekk á bílnum þeirra. Þegar þau baka uppá kemur Riff Raff, a handyman (Richard O'Brien) og býður þeim inn til að hringja. En það verður ekki svo auðvelt að fá að hringja eitt símtal. Parið dregst inn í party hjá "húsbóndanum", sem er brjálaður, tvíkynhneigður og stórsnjall vísindamaður og klæðskiptingur að nafni Dr. Frank-N-Furter (Tim Curry, sem fer algjörlega á kostum í þessu hlutverki).Eftir það fer af stað vægast sagt stórskrýtin atburðarrás með innskotum frá sögumanninum (The Criminologist - An Expert (Charles Gray)), sem að ég ætla ekki að spoila hérna.

Tónlistin í myndinni er æðisleg, lögin eru skemmtileg, full af háði og grípandi og þig langar voða lítið annað en að hlusta á þau aftur og læra þau til þess eins að geta sungið með næst þegar þú horfir á myndina.

Leikurinn í myndinni er afbragð. Tim Curry nær að fanga geðbilunina í Frank-N-Furter á tranepískan hátt og fer hann vægast sagt á kostum í þessari mynd. Barry Bostwick nær vandræðaleikanum hjá Brad Majors æðislega vel og Susan Sarandon lætur alla trúa að Janet Weiss sé svo saklaus og hrein að hún hafi ekki einu sinni hugsað eina ljóta hugsun yfir ævina. Aðrar persónur eins og Little Nell, Magentha, Riff Raff, Meatloaf og Rocky eru líka leiknar snilldarlega, þá sérstakleg stórfurðulega sambandið milli Riff Raff og Magenthu. Persónuþróunin í myndinni er líka mjög mikil og það liggur við að þú sjáir breytingu á hverri persónu með mínútu fresti, það gerir myndina trúverðuga á þann hátt að ef þú værir fastur í kastala með kærustunni þinni hjá brjáluðum klæðskipting sem er nýbúinn aðbúa til mann úr engu og sem syngur lög með reglulegu millibili þá myndi þetta gerast svona.



Myndartakan er líka góð eins og flestallir aðrir hlutir í myndinni, ekkert sem að sker í augun né neitt sem skarar hrikalega mikið fram úr. Tæknibrellurnar í myndinni eru hlægilegar í dag en voru barn síns tíma. Sviðsmyndin er æðislega steikt og gefur myndinni þennan skemmtilega karakter sem einkennir hana ásamt búningunum.

Ég veit varla hvað ég á að segja meira um þessa mynd. Ég er nokkuð viss um að skoðun min á henni hafi komið greinilega fram í blogginu þannig að ég ætla ekki að eyða óþarfa orðum í hana hér. Það er þá bara ekkert eftir en stjörnugjöf. 4 af 5 mögulegum.