Wednesday, December 2, 2009

Tropa de Elite

Tropa de elite






Ég horfði nýlega á brasilísku myndina Tropa de elite í leikstjórn José Padilha. Myndin gerist í Rio og fjallar um sérdeild innan lögreglunnar sem heitir BOPE og baráttu hennar gegn eiturlyfjasölu, gengjum Rio og hina spilltu "venjulegu" lögreglu.
Lesendur þekkja nú örugglega flestir myndina Cidade de Deus (e.: City of God). Hún er þekktust af mörgum brasilískum myndum sem fjalla um líf götustráka í Rio og baráttu þeirra um það að komast af í hörðum heimi. Tropa de elite veitir okkur nú innsýn inn í þessa sömu veröld en frá öðru sjónarhorni.

Í myndinni fylgjumst við með 3 mönnum og lífi þeirra og starfi innan lögreglunnar í Rio. Sá sem segir okkur sögu myndarinnar (voice over) ásamt því að koma okkur inn í aðstæður í byrjun myndar er Nascimiento, foringi hjá BOPE og stjórnar þar sínu eigin liði innan þess. Frá upphafi myndarinnar fylgjumst við einnig með sögu og þróun tveggja vina, Neto og André, innan lögregluliðs Rio.

Þeir félagar ganga í lögregluna af réttum ástæðum og ætla að verða heiðvirðir lögreglumenn sem í raun vernda fólkið. Þeir komast hins vegar fljótt að því hversu spillt lögreglan er í raun og lítið gengur hjá þeim. Svo komast þeir í kynni við BOPE. BOPE er í raun hörð átakasveit sem ræðst vægðarlaust til atlögu gegn gengjunum. Heiðvirðir en harðir.

Við komumst fljótt að því að Nascimiento er að leita að eftirmanni sínum og hefur komið auga á þá félaga og heldur að annar þeirra gæti orðið hugsanlegur arftaki sinn. Þeir eru mismunandi týpur. Neto þráir ekkert heitar en að vera innan BOPE og hefur þar fundið köllun sína í lífinu. Hann er þó ekki beittasti hnífurinn í skúffunni og hættir til að vera of kappsamur og Nascimiento er hræddur um að hann gæti orðið of kappsamur í verkefnum sínum og gleymt að hugsa. André er hins vegar klár og yfirvegaður en hann langar til að verða lögfræðingur og er í skóla að læra þá grein meðfram vinnu sinni.

Með því að fá að fylgjast með þessum þremur ólíku persónum sem allar eru flæktar inn í sama heim á mismunandi forsendum og sækjast allir eftir mismunandi hlutum tekst myndinni að veita okkur breiða innsýn inn í þann heim sem BOPE fæst við. Í gegnum André sjáum við þá fordóma sem almenningur hefur á lögreglu. Við sjáum þetta í umræðum í lögfræðitímum og í gegnum nám hans og félaga í skólanum. Hann segir engum að hann sé lögregla en þegar upp koma umræður í skólanum um lögreglu og skipulag hennar er hann sá eini sem virðist hafa trú á því að einhver hluti hennar sé í það minnsta ekki spilltur og reyni að starfa heiðarlega gegn gengjunum. Fólk hefur lært að lifa með gengjunum og gera ráð fyrir þeim í sínu daglega lífi. Neto litar allt svart eða hvítt, annað hvort ertu með eða á móti og þeir sem hjálpa ekki eru á móti honum og markmiði BOPE. Þegar við fylgjumst með Nascimiento fáum við að vita af hverju hann vill hætta. Hann á konu og nýfætt barn og við sjáum þá erfiðleika sem lögreglan stendur frammi fyrir. Þeir eru í stöðugri hættu, þurfa sífellt að vera viðbúnir og vinna myrkrana á milli.



Ég hafði gaman að söguþræði myndarinnar og uppbyggingu hennar. Eins og áður sagði er Nascimiento eins konar sögumaður myndarinnar. Hann segir okkur sögu sína, Neto og André. Sögur þeirra þriggja fléttast svo skemmtilega saman og mynda fléttu myndarinnar. Framgangur og þróun myndarinnar er góð. Hún byrjar hægt og rólega og kynnir vel aðstæður og söguna en eftir því sem á líður eykst frásagnarhraðinn og eykur það spennustig myndarinnar. Með því að sýna okkur þrjár mismunandi hliðar og skoðanir allra þeirra sem tengjast þeim félögum tekst José Padilha að veita okkur mjög fjölbreytta og greinargóða sýn á líf þessara sérsveitarmanna og erfiðleikanna sem þeir standa frammi fyrir. Myndin gengur eins og smurð og eru atriðaröð og kvikmyndataka til fyrirmyndar.

Ég mæli því eindregið með því að næst þegar þú viljir horfa á skemmtilega spennumynd þá smellirðu Tropa de Elite í tækið með tilheyrandi poppi og látum. Toppræma.

9


Ég skellti mér um daginn í að horfa á myndina 9.

Þessi mynd gefur sýn á heiminn eftir að vélar hafa útrýmt mannkyninu. 9 (Elijah Wood) er lítil dúkka sem vaknar í þessum nýja heimi og fer á stjá til að leita merkis um líf. Hann rekst fyrir tilviljun á aðra dúkku, 2 (Martin Landau), sem segir honum að það séu fleiri eins og þeir til en áður en hann getur leitt hann til hinna þá kemur vélhundurinn Beast og ræðst á þá. 5 (John C. Reilly) finnur 9 eftir að Beast hverfur á brott með 2 og leiðir hann í athvarfið sem 1 (Christopher Plummer) hefur útbúið handa þeim og útnefnt sjálfan sig leiðtoga í. Í athvarfinu eru 1, 5, 6 og 8 að fela sig fyrir heiminum. 9 tekst að sannfæra 5 um að koma með sér í björgunarleiðangur á eftir Beast til að sækja 2 en þegar þeir hafa, með aðstoð 7 (Jennifer Connelly), fundið og leyst 2 þá klúðrar 9 málunum með því að stinga litlum kubbi, sem hann fann þegar hann vaknaði til lífsins, í samsvarandi gat á vélinni Brain og vekur hana, morðingja mannfólksins, til lífsins. Eftir það þurfa dúkkurnar að taka á honum stóra sínum og finna leið til að drepa vélina áður en hún sogar lífið úr þeim öllum og endar þar með alla von um endurreisn heimsins.

9 er ótrúlega flott og vel gerð mynd...myndrænt séð. Að horfa á hana í HD er algjört konfekt fyrir augun því hvert einasta smáatriði fær að njóta sín í botn og að því leitinu til var rosa gaman að horfa á hana. Söguþráðurinn eftir Shane Acker (sem leikstýrir henni líka) og Pamela Pettler er ekkert endilega sá besti í heiminum en hann gengur þannig alveg eins langt og hann nær.

Persónurnar í myndinni eru mjög skemmtilegar. Það er 1 sem er algjör skræfa sem felur sig bakvið hatt, staf og skikkju til marks um vald sitt, 9 sem er nýr á svæðinu en stendur samt fast á gildum sínum og lætur ekki stjórnast af hótunum, 7 sem er eina stelpan en samt hörðust af þeim og 6 (Crispin Glover) sem er snargeðveikur en er samt sá sem segir mest af viti. Leikararnir sem ljá raddir sínar gera það öll mjög vel og sést að mikið var hugsað um hver myndi passa í hvert hlutverk ekki bara að troða frægu fólki inn sem er mjög ánægjulegt.

Niðurstaðan er sú að þetta er mjög spes mynd en samt þess virði að sjá fyrir áhugafólk um flottar teiknimyndir. Á því sviði fær hún stóran plús í kladdann.

3 af 5 stjörnum

Tuesday, December 1, 2009

Þættir sem ég horfi á...

Jæja, þar sem ég nenni ekki að sofa þá er ég að spá í að skella inn smá færslu um þá sjónvarpsþætti sem ég fylgist eitthvað með af viti.


Family Guy:
Þessir gamanþættir eftir Seth McFarlane hófu göngu sína árið 1999 og mörkuðu nýtt upphaf í teiknimyndabransanum. Loksins var komin mainstream teiknimyndasería sem höfðaði aðeins meira til eldra fólks.

Serían fjallar um algjörlega óstarfhæfa fjölskyldu sem samanstendur af: Peter Griffin (Pabbinn) sem er nautheimskur, feitur, hvatvís og hugsar eftir að hann framkvæmir. Lois Griffin (Mamman)sem er hin týpíska heimavinnandi húsmóðir eins og sjá má í flestum amerískum þáttum. Chris Griffin (eldri sonurinn) nautheimskur og feitur eins og pabbi sinn og algjörlega félagslega einangraður. Meg Griffin (dóttirin) hverjum er ekki sama um hana? Stewie Griffin (yngri sonurinn) morðóður smákrakki með furðulega mikla tæknikunnáttu, hæfileikann til að tala (þó að aðeins valdir einstaklingar skilji hann) og aðeins eitt takmark, að drepa móður sína. Og svo loks Brian Griffin (hundurinn) hann gengur á tveimur fótum og er sá gáfaðasti í húsinu, reynir að koma sér áfram sem rithöfundur en það gengur illa, áfengissjúkur og fílar heimskar stelpur.

Þættirnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir þannig að það er lítið hægt að fara í einhvern söguþráð hérna en þeir fjalla basically um daglegt líf fjölskyldunnar sem að er nógu skrýtið fyrir en það er líka truflað af súrum og oft virkilega fyndnum innskotum af atburðum sem hafa þegar gerst.

Húmorinn í þáttunum er oft barnalegur, steiktur og það er stundum eins og höfundarnir hafi verið á sterkum lyfjum þegar þátturinn var skrifaður.


South Park:

Trey Parker og Matt Stone eiga heiðurinn af bestu teiknuðu grínþáttum (að mínu mati) sem miðaðir voru algjörlega á eldri áhorfendur. Hófu göngu sína árið 1997 og núna nýlega var 13 seríu að ljúka. Það átti að hætta að framleiða þessa þætti eftir 8. seríu en guði sé lof að það var ekki gert. Þetta eru vafalaust beittustu grínþættirnir sem eru í sjónvarpinu þessa dagana og mér finnst það furðulegt að engin íslensk sjónvarpsstöð hafi tryggt sér sýningarréttinn á þessum snilldarþáttum fyrir löngu!

South Park fjallar um 4 stráka sem búa í smábænum South Park í Colarado fylki í bandaríkjunum. Þessir þættir eru í miklu uppáhaldi hjá mér því að húmorinn í þeim er svo svartur á köflum og höfundunum er ekkert heilagt. Einnig þá er mikil samfélagsgagnrýni falin inn í húmornum og er gaman að sjá höfundana gera grín af ótrúlegustu þáttum samfélagsins í gegnum líf fjögurra 4. bekkinga. Það er eiginlega voða erfitt að lýsa persónunum í þáttunum því að þó að strákarnir fjórir séu allir mjög skilgreindir karakterar þá er erfitt að koma orðum að þeim. Þú þarft ekki að horfa nema á einn þátt til að sjá hvernig týpur hver og einn er. Stan er bara Stan, veit ekki hvernig ég á að lýsa honum. Kyle er skynsami gyðingurinn. Kenny er fátæki heimski gaurinn sem deyr alltaf og Cartman er fordómafullur háfviti og mögulega einn fyndnasti karakter sem hefur verið skapaður!

Þættirnir fjalla um ævintýri þeirra stráka sem verða mjög skrautleg og blandast inn í þaumargar frægar og umdeildar persónur. Þessir þættir eru hrein snilld og ég mæli með því að ef þér finnst gaman að hlæja og hefur gaman að svörtum húmor að þú kíkir á þessa!


House:


Læknadrama af hæsta gæðaflokki. Þessir þættir snýta að mínu mati öllu þessu Greys anatomy og ER drasli þegar það kemur að skemmtun og gæðum. Það gæti tengst því að ég tengi aðeins betur við kaldhæðinn, miðaldra snillinginn sem Dr. Greogory House er frekar en ég tengi við miðaldra konu á breytingarskeyðinu. En allavegna þá eru þessir þættir eftir David Shore hrein snilld.

Þættirnir hófu göngu sína árið 2004 og náðu strax gríðarmiklum vinsældum. Hugh Laurie er frábær í hlutverki Dr. House og þættirnir eru allir frábærlega gerðir.

Þeir fjalla um andfélagslegan og bráðsnjallan lækni sem sér hæfir sig í því að greina hina flóknustu sjúkdóma. Sér til hjálpar hefur hann 4 manna teymi af ungum læknum sem sjá um alla fótavinnuna. House gerir allt sem þarf til að ná fram greiningu og þykir mörgum aðferðir hans vera virkilega öfgafullar en það er bara eitt af því sem er skemmtilegt við þáttinn. En það að vera snillingur hefur aukaverkanir. Hann á svo til enga alvöru vini, lifir fyrir vinnuna sína og heimfærir greingingarhæfileika sína yfir á allt sem gerist í kringum hann. Nánasti vinur hans Wilson má varla sleppa því að drekka morgunkaffið sitt án þess að House sé farinn að grein afhverju það er. Í fyrstu seríunum þá var House háður vicodin sem er sterkt verkjalyf sem hann þurfti að taka útaf löppinni á sér en hún varð svo til ónothæf eftir að hann lenti í mótorhjólaslysi. En nú í byrjun 6. seríu þá fylgjum við honum í gegnum meðferð við lyfjafíkninni og svo í gegnum baráttuna við það að halda sér frá þessum lyfjum.

Það má vægast sagt segja að þessi þáttur hefur allt. Frábæran leikhóp, vel skapaðar persónur, gott drama, dash af læknalingói sem hljómar mjög vel, mikið af snilli og alveg heilan helling af skemmtun. Ef þú hefur ekki horft á House áður, drífðu þig þá í því!

How I met your mother:


Okei fjölmiðlar segja "hinir nýju friends þættir" en sorry það kemst enginn alveg svo langt... allavegna ekki ennþá á meðan Friends eru svona ferskir í minningunni hjá okkur. Það sést kannski best á því að HIMYM æðið fór ekki af stað fyrr en eftir að það var hætt að sýna friends og fólk þurfti að finna eitthvað í staðinn og þá sáu framleiðendur leik á borði og byrjuðu með HIMYM. En engu að síður mjög skemmtilegir þættir og góð afþreying.

Þættirnir eru skrifaðir af Carter Bays og Craig Thomas og hófu göngu sína árið 2005 en það er einmitt árið eftir að Friends hætti. Tilviljun? Þeir fjalla um vinahóp sem býr í New York og samanstendur af fimm mjög ólíkum karakterum. Söguþráðurinn í þáttunum er þannig að þetta er pabbi sem er að segja börnunum sínum söguna af því hvernig hann kynntist mömmu þeirra. Pabbinn er Ted Mosby, lærður arkitekt með mikla drauma um það að fá að hanna skýjakljúfur í New york. Hann bíður spenntur eftir að hitta ástina í lífi sínu og giftast og lifa hamingjusamur að eilífu. En til þess að hlutirnir gangi upp þá þarf stelpan að standast staðlana sem Lily setur en Lily er stjórnsamur leikskólakennari sem þarf að hafa puttana í öllu sem gerist. Eiginmaður hennar er kærastinn hennar úr háskóla Marshall Eriksen hann er líka besti vinur Teds. Marshall er lögfræðingur sem vill helst vinna fyrir umhverfið en þurfti að taka vinnu í banka upp á peninga, en sá sem reddaði honum vinnunni er fjórði karakterinn í þáttunum (og aðalgaurinn að flestra mati) Barney Stinson. Barney er kvennabósi í hæsta gæðaflokki, hann hefur enga samvisku og er bara snillingur. Hann er alltaf í jakkafötum og finnst að allir karlmenn eigi að vera í jakkafötum, en hann á sér viðkvæma fortíð... Síðasta aðalpersónan er Robin Scherbatsky, fréttakona frá Kanada sem álpast inn í hópinn eftir að hafa verið kærasta Ted í smátíma, það kemur þó snemma fram að svona kynntist hann Robin frænku þannig að hún er útilokuð sem sú sem hann endar með.

Þættirnir eru hver um sig mjög fyndnir en allir áhorfendur bíða þó spenntir eftir því að komast að því hver er mamma barnanna, þó ég hafi á tilfinningunni að það verði smá bið í það ennþá.


Chuck:



Þessir snilldarþættir eru skrifaðir af Chris Fedak og Josh Schwartz og fjalla um ungan mann að nafni Chuck Bartowski sem að átti bjarta framtíð fyrir framan sig, var að klara stanford, átti fallega kærustu og hafði heiminn að fótum sér þangað til að hann var rekinn úr Stanford fyrir svindl. En besti vinur hans kom fyrir sönnunargögnum um svindlið og lét reka hann og stal kærustunni hans í leiðinni. Þaðan lá leiðin niðrávið Chuck hætti að trúa á sjálfan sig og endaði á því að búa hjá systur sinni Ellie og kærastanum hennar Dr. Awesome (Devon Woodcomb). Það virtist ekki mikið ætla að gerast í lífinu hjá Chuck þar sem hann sat fastur í lélegu starfi sem tölvuviðgerðarmaður í "Buy More" búð og getur aldrei gert neitt því að besti vinur hans Morgan Grimes heldur aftur af honum. Þangað til að besti vinur hans úr Stanford, Bryce Larkin, brýst inn í ofurtölvu bandaríska ríkisins "The intersect" og stelur öllum gögnunum sem eru kóðuð inn í myndir og sendir á Chuck ásamt því að eyða raunverulegu tölvunni. Chuck opnar póstinn tregur en þegar hann gerir það þá prentast allar upplýsingarnar inn í hausinn á honum og núna er hann orðinn mikilvægasta eign Bandaríkjanna. Til að vernda hann eru sendir tveir fulltrúar frá bandaríska ríkinu. Agent John Casey frá NSA og Agent Sarah Walker frá CIA. John Casey er hinn týpíski hardcore her gaur með svo til engar tilfinningar en aftur á móti fara bráðum straumar að fljúga á milli Chuck og fokking heita CIA agentsins Söruh Walker.

Í þáttunum þá fylgjum við Chuck, Söruh og Casey þar sem þau sinna hinum ýmsu verkefnum eins og að finna sprengjur og bjarga heiminum frá gereyðingu ásamt því að við fylgjumst með þvi hvernig Chuck tekst að halda jafnvægi milli njósnalífsins og alvöru lífsins ásamt því að fylgjast með sambandinu sem þróast milli hans og Söruh. Þannig að þríþættur söguþráður sem skilar skemmtilegum þætti í hvert einasta skipti.

ég var dottinn langt á eftir í þessum þáttum og átti nánast alla aðra seríuna eftir en eina andvökunótt þá bætti ég úr því og kláraði aðra seríu og núna get ég varla beðið eftir þeirri þriðju!


Þetta eru þeir þættir sem ég horfi reglulega á og fylgist vel með. Að sjálfsögðu horfi ég á aðra þætti enda verður það seint sagt um okkar tíma að þar hafi vantað skemmtunarefni.