Wednesday, December 2, 2009
9
Ég skellti mér um daginn í að horfa á myndina 9.
Þessi mynd gefur sýn á heiminn eftir að vélar hafa útrýmt mannkyninu. 9 (Elijah Wood) er lítil dúkka sem vaknar í þessum nýja heimi og fer á stjá til að leita merkis um líf. Hann rekst fyrir tilviljun á aðra dúkku, 2 (Martin Landau), sem segir honum að það séu fleiri eins og þeir til en áður en hann getur leitt hann til hinna þá kemur vélhundurinn Beast og ræðst á þá. 5 (John C. Reilly) finnur 9 eftir að Beast hverfur á brott með 2 og leiðir hann í athvarfið sem 1 (Christopher Plummer) hefur útbúið handa þeim og útnefnt sjálfan sig leiðtoga í. Í athvarfinu eru 1, 5, 6 og 8 að fela sig fyrir heiminum. 9 tekst að sannfæra 5 um að koma með sér í björgunarleiðangur á eftir Beast til að sækja 2 en þegar þeir hafa, með aðstoð 7 (Jennifer Connelly), fundið og leyst 2 þá klúðrar 9 málunum með því að stinga litlum kubbi, sem hann fann þegar hann vaknaði til lífsins, í samsvarandi gat á vélinni Brain og vekur hana, morðingja mannfólksins, til lífsins. Eftir það þurfa dúkkurnar að taka á honum stóra sínum og finna leið til að drepa vélina áður en hún sogar lífið úr þeim öllum og endar þar með alla von um endurreisn heimsins.
9 er ótrúlega flott og vel gerð mynd...myndrænt séð. Að horfa á hana í HD er algjört konfekt fyrir augun því hvert einasta smáatriði fær að njóta sín í botn og að því leitinu til var rosa gaman að horfa á hana. Söguþráðurinn eftir Shane Acker (sem leikstýrir henni líka) og Pamela Pettler er ekkert endilega sá besti í heiminum en hann gengur þannig alveg eins langt og hann nær.
Persónurnar í myndinni eru mjög skemmtilegar. Það er 1 sem er algjör skræfa sem felur sig bakvið hatt, staf og skikkju til marks um vald sitt, 9 sem er nýr á svæðinu en stendur samt fast á gildum sínum og lætur ekki stjórnast af hótunum, 7 sem er eina stelpan en samt hörðust af þeim og 6 (Crispin Glover) sem er snargeðveikur en er samt sá sem segir mest af viti. Leikararnir sem ljá raddir sínar gera það öll mjög vel og sést að mikið var hugsað um hver myndi passa í hvert hlutverk ekki bara að troða frægu fólki inn sem er mjög ánægjulegt.
Niðurstaðan er sú að þetta er mjög spes mynd en samt þess virði að sjá fyrir áhugafólk um flottar teiknimyndir. Á því sviði fær hún stóran plús í kladdann.
3 af 5 stjörnum
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 stig.
ReplyDelete