Wednesday, December 2, 2009

Tropa de Elite

Tropa de elite






Ég horfði nýlega á brasilísku myndina Tropa de elite í leikstjórn José Padilha. Myndin gerist í Rio og fjallar um sérdeild innan lögreglunnar sem heitir BOPE og baráttu hennar gegn eiturlyfjasölu, gengjum Rio og hina spilltu "venjulegu" lögreglu.
Lesendur þekkja nú örugglega flestir myndina Cidade de Deus (e.: City of God). Hún er þekktust af mörgum brasilískum myndum sem fjalla um líf götustráka í Rio og baráttu þeirra um það að komast af í hörðum heimi. Tropa de elite veitir okkur nú innsýn inn í þessa sömu veröld en frá öðru sjónarhorni.

Í myndinni fylgjumst við með 3 mönnum og lífi þeirra og starfi innan lögreglunnar í Rio. Sá sem segir okkur sögu myndarinnar (voice over) ásamt því að koma okkur inn í aðstæður í byrjun myndar er Nascimiento, foringi hjá BOPE og stjórnar þar sínu eigin liði innan þess. Frá upphafi myndarinnar fylgjumst við einnig með sögu og þróun tveggja vina, Neto og André, innan lögregluliðs Rio.

Þeir félagar ganga í lögregluna af réttum ástæðum og ætla að verða heiðvirðir lögreglumenn sem í raun vernda fólkið. Þeir komast hins vegar fljótt að því hversu spillt lögreglan er í raun og lítið gengur hjá þeim. Svo komast þeir í kynni við BOPE. BOPE er í raun hörð átakasveit sem ræðst vægðarlaust til atlögu gegn gengjunum. Heiðvirðir en harðir.

Við komumst fljótt að því að Nascimiento er að leita að eftirmanni sínum og hefur komið auga á þá félaga og heldur að annar þeirra gæti orðið hugsanlegur arftaki sinn. Þeir eru mismunandi týpur. Neto þráir ekkert heitar en að vera innan BOPE og hefur þar fundið köllun sína í lífinu. Hann er þó ekki beittasti hnífurinn í skúffunni og hættir til að vera of kappsamur og Nascimiento er hræddur um að hann gæti orðið of kappsamur í verkefnum sínum og gleymt að hugsa. André er hins vegar klár og yfirvegaður en hann langar til að verða lögfræðingur og er í skóla að læra þá grein meðfram vinnu sinni.

Með því að fá að fylgjast með þessum þremur ólíku persónum sem allar eru flæktar inn í sama heim á mismunandi forsendum og sækjast allir eftir mismunandi hlutum tekst myndinni að veita okkur breiða innsýn inn í þann heim sem BOPE fæst við. Í gegnum André sjáum við þá fordóma sem almenningur hefur á lögreglu. Við sjáum þetta í umræðum í lögfræðitímum og í gegnum nám hans og félaga í skólanum. Hann segir engum að hann sé lögregla en þegar upp koma umræður í skólanum um lögreglu og skipulag hennar er hann sá eini sem virðist hafa trú á því að einhver hluti hennar sé í það minnsta ekki spilltur og reyni að starfa heiðarlega gegn gengjunum. Fólk hefur lært að lifa með gengjunum og gera ráð fyrir þeim í sínu daglega lífi. Neto litar allt svart eða hvítt, annað hvort ertu með eða á móti og þeir sem hjálpa ekki eru á móti honum og markmiði BOPE. Þegar við fylgjumst með Nascimiento fáum við að vita af hverju hann vill hætta. Hann á konu og nýfætt barn og við sjáum þá erfiðleika sem lögreglan stendur frammi fyrir. Þeir eru í stöðugri hættu, þurfa sífellt að vera viðbúnir og vinna myrkrana á milli.



Ég hafði gaman að söguþræði myndarinnar og uppbyggingu hennar. Eins og áður sagði er Nascimiento eins konar sögumaður myndarinnar. Hann segir okkur sögu sína, Neto og André. Sögur þeirra þriggja fléttast svo skemmtilega saman og mynda fléttu myndarinnar. Framgangur og þróun myndarinnar er góð. Hún byrjar hægt og rólega og kynnir vel aðstæður og söguna en eftir því sem á líður eykst frásagnarhraðinn og eykur það spennustig myndarinnar. Með því að sýna okkur þrjár mismunandi hliðar og skoðanir allra þeirra sem tengjast þeim félögum tekst José Padilha að veita okkur mjög fjölbreytta og greinargóða sýn á líf þessara sérsveitarmanna og erfiðleikanna sem þeir standa frammi fyrir. Myndin gengur eins og smurð og eru atriðaröð og kvikmyndataka til fyrirmyndar.

Ég mæli því eindregið með því að næst þegar þú viljir horfa á skemmtilega spennumynd þá smellirðu Tropa de Elite í tækið með tilheyrandi poppi og látum. Toppræma.

1 comment: