Friday, April 16, 2010

Gagnrýnisblogg....

Okei, þegar ég sá þessa pöntun þína þá fór að hlakka í mér. Ég var alveg orðinn tilbúinn í það að skrifa langt og gagnrýnið blogg um námskeiðið og efnið en svo þegar ég fór að hugsa meira og meira um hvað það ætti að vera sem ég ætti að gagnrýna þá fór ég að finna færri og færri hluti. Það þýðir nú samt ekki að þetta námskeið hafi verið gallalaust. Við skulum brjóta þetta niður í nokkra flokka til að gera þetta aðeins skipulagðara og auðveldara að skilja.

1) Væntingar:

Þegar ég ákvað að fara í kvikmyndagerð þá bjóst ég við því að það yrði sjúklega skemmtilegt. Ég var ekki alveg viss um bloggið og hvort að það gæti verið gaman að vera að skrifa einhverjar ritgerðir um allar bíómyndir sem ég horfi á en það kom mér virkilega á óvart hvað það var gaman að blogga. Það var ekki einu sinni farið að fá á mig þreyta þegar ég var kominn í 1000 orð í hverju bloggi (sem að er ekki eðlilegt m.v. þegar ég skrifa íslenskuritgerðir) Námskeiðið í heildina var viiiirkilega skemmtilegt og stóðst undir öllum mínum væntingum og meira til. Þeir sem hafa talað við mig um kvikmyndagerð vita nákvæmlega hversu gaman þetta er búið að vera. Annað sem að kom mér virkilega á óvart með þetta námskeið var áhugavakinn sem þetta varð hjá mér, áður þá hef ég alltaf bara hugsað "hey það gæti verið nett að gera bíómynd eeeen nahhhh ég nenni því ekki". Núna þá líður varla mínúta án þess að mig langi að fara að skrifa handrit eða byrja tökur bara. Þannig að já námskeiðið fær 10 í einkunn fyrir það að hafa staðið undir væntingum!

2) Verkefni:

Maraþonmyndin: Veistu ég er svona semi tæpur á þessari mynd. Jújú það var ágætt að gera hana en ég myndi vilja sjá eitthvað annað verkefni hérna sem fókuseraði kannski aðeins meira að því að virkilega læra kvikmyndunartækni. Eða þá bara að halda verkefninu en fresta því aðeins þangað til að þú ert búinn að fara betur í myndatöku.

Heimildarmyndin: Virkilega skemmtilegt verkefni, lítið hægt að segja annað en það. Halda þessu inni að eilífu því að þetta er krefjandi, fræðandi og virkilega skemmtilegt. Mætti samt setja meiri áherslu á það að beita tæknunum sem að þú kennir í tímanum sem og leggja áherslu á það að fólk læri að finna skot og svona.

Fyrirlestrarnir: Já ég er á báðum áttum með 2 fyrirlestra. Annarsvegar þá er þetta mjög gaman og fræðandi að hlusta og skrifa þessa fyrirlestra en hinsvegar þá er alveg virkilega mikið vinnuálag á manni í þessu fagi ef maður ætlar að fá 10. Þessvegna finnst mér að það ætti að skera aðeins niður verkefnin í námskeiðinu og gefa lengri tíma frekar fyrir stuttmyndirnar.

Handritamappan: Halda þessu alveg nema kannski með smá breytingum eins og að hafa meira svigrúm fyrir því að nemendur geti skrifað sitt eigið handrit frá grunni og jafnvel leggja áherslu á það að það geti hækkað mann upp.

Lokaverkefnið: Þetta er bara það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það eina sem ég sé að hér er það að þetta er sýnt svona rétt fyrir stúdentspróf og er ógeðslega tímafrekt þannig að það mætti gefa aðeins meiri tíma fyrir þetta verkefni. En annars bara snilld.

Námskeiðið fær 8.5/10 fyrir verkefni

3) Efni:

Það er í þessum flokki sem ég er hvað ósáttastur með þennan kúrs. Mér finnst að kvikmyndasagan mætti fjúka að mestu leiti og að kennslan og kennsluefnið ætti miklu meira að miða að því að kenna okkur að verða kvikmyndagerðamenn. Fara betur í mismunandi skot og jafnvel sýna þau með því að tengja cameruna við skjávarpann. Fara í mikilvægi þess að Whitebalancea og hvenær þú átt ekki að gera það, kenna okkur að taka profile skot o.s.frv. Það má allavegana fara meiri tími í þetta þó að kvikmyndasagan þurfi ekki alveg að víkja. Ég veit að þetta var eitthvað smá en ég vil fá meira af þessu og fá kannski myndatökumann í heimsókn einu sinni sem að útskýrir hvernig maður á að taka upp á glidecam, dolly, krana og hvernig er best að ná sem flottustu skotunum af þrífæti. Ég veit bara að eftir að hafa spjallað við Unnar aðeins þá opnaðist fyrir mér nýr heimur af möguleikum. Og já líka sleppa þessu blessaða lokaprófi... mér finnst eiginlega fáránlegt að ég sé nýbúinn að eyða sjúklega miklum tíma í það að gera þessa stuttmynd og svo er ég líka að fara í próf. Mér finnst að lokaverkefnið eigi að vera prófið og til myndanna ættu að vera gerðar strangari kröfur, fólk á að fá meiri tíma fyrir þær, skila aðeins fyrr og áherslan á að vera lögð á fagmannleg vinnubrögð við upptöku og eftirvinnslu.

Fyrir efni fær námskeiðið 7/10

Að öllu þessu sögðu þá vil ég bara enda á að segja að þetta námskeið var það skemmtilegasta sem ég hef farið í á tíma mínum í MR og fyrir það er ég þakklátur. Þetta námskeið opnaða fyrir mér nýja möguleika, nýjar hugmyndir og nýjar pælingar. Virkilega vel að öllu staðið og ég vona innilega að það verði fleiri sem fá að njóta þess að vera í þessu námskeiði á næstu árum.

Takk fyrir veturinn!

Thursday, April 1, 2010

Hurt Locker

Hurt Locker



Þá er komið að því að blogga um "bestu" mynd ársins. Það er nú búinn að líða smá tími frá því að ég sá hana en það var rétt fyrir Óskarinn. Ég ákvað samt að horfa á hana aftur um daginn þar sem að hún var nú einu sinni valin, besta myndin.

Myndin er skrifuð af Mark Boal sem að var fréttamaður úti í Írak í stríðinu og ákvað að skrifa sögu í kringum það sem hann sá og upplifði. Hann sagði í viðtali sem ég sá um daginn að hann teldi þetta vera skyldu hans þegar hann sá hvað hermennirnir þurfti að takast á við dags daglega. Það sem varð til var handritið af The Hurt locker. Kathryn Bigelow var fengin til að leikstýra (ógeðslega fyndið að hún er fyrrverandi kona James Cameron og hún vann hann... vandræðalegt) og til varð myndin The Hurt locker. Myndin fjallar um sveit hermanna í Írak sem að glíma við það erfiða verkefni að aftengja sprengjur á opnum og erfiðum stöðum. Þegar leiðtogi sveitarinnar deyr þá tekur við nýr maður US Army Sergeant First Class Will James og eftir að það gerist fara hlutirnir að æsast. James fer ekki eftir gömlu reglum sveitarinnar heldur fer hann sínar eigin leiðir. Hann elskar ekkert meira en það að fara í sprengjugallann og sjá bara um málin sjálfur en það setur ekki bara hann í hættu heldur líka Sanborn og Eldridge sem að eru ekki sáttir með það enda aðeins rétt um mánuður eftir af túrnum þeirra í Írak. Við fylgjum svo þessari sveit úrvalshermanna í gegnum sætt og súrt þar sem þeir takast á við lífshættulegar aðstæður og sína innri djöfla. Við sjáum þá taka miklum breytingum í gegnum myndina og þar finnst mér snilldin liggja. Það er ekkert mikið meira að segja um söguþráðinn þar sem að ég ætla ekki að rekja hann allan hérna ef að einhver á eftir að sjá hana en við skulum þá vinda okkur í aðra hluti.



Myndin hlaut 6 Óskarsverðlaun: Besta myndin, Besta leikstjórn, Besta klipping, Besta "sound editing", Besta "sound mixing" og Besta upprunalega handritið. Mér finnst það vera við hæfi að fara aðeins yfir það hvað þessi mynd á skilið og hvað ekki. Ég veit nú að vísu frekar lítið um hljóðvinnslu og svona þannig að ég ætla að láta það vera en förum yfir hitt.

Besta klippingin: Ég verð að segja að ég held að það sé frekar erfitt að dæma hérna fyrir akademíuna og í rauninni að þá held ég líka að flestir í akademíunni kjósi bara myndina sem þau fíla svona best í þessum flokki. Jújú klippingin í myndinni var alveg góð og ég tók ekki eftir neinum continuity vandamálum en það er erfitt að segja hvaða mynd er með bestu klippinguna þar sem að það eru svo margir stílar í klippingu að þetta snýst bara um huglægt mat hvers og eins. Klippingin í The Hurt locker var mjög fín, samtölin virkuðu eðlileg, það var ekki klippt of mikið í hasarsenum og klippingin skapaði rétt andrúmsloft í myndinni. Á meðan ég er að skrifa þetta núna þá langar mig að horfa á myndina aftur og taka eftir því hvort að klippingin breytist eitthvað eftir því sem líður á myndina og andleg líðan persónanna breytist en ég veit ekkert um það núna. Mun samt bókað tékka á þessu seinna. Allt í allt: Fyrir mitt leiti var klippingin bara góð ekkert GEÐVEIK en þar sem þetta er matsatriði þá látum við það liggja á milli hluta hvort að þau verðlaunin voru verðskulduð eða ekki.



Besta upprunalega handritið: Hérna vil ég hafa meira um hlutina að segja. Handritið fyrir The Hurt locker er snilld. Núna eru geðveikt margir sem að lesa þetta bara "Hvað meinaru það gerist ekki neitt í þessari mynd, þeir eru bara eitthvað að aftengja sprengjur og eitthvað". En guð minn góður þið hafið rangt fyrir ykkur. Þessi mynd snýst miklu minna um það sem að við sjáum gerast sbr. þeir að aftengja sprengjur, en miklu meira um það sem að við sjáum ekki sbr. það sem er að gerast í hausnum á þeim. Upphafssetningin sem kemur á skjáinn í byrjun "War is a drug" er það sem við þurfum að hafa í huga alla myndina. Handritið túlkar hugarástand hermannanna á snilldarlegan hátt og við sjáum þá taka breytingum í gegnum myndina. Vandamálið er samt sem áður að þessar breytingar virðast vera svo smávægilegar á yfirborðinu að það er ekki fyrr en þú kafar djúpt ofan í þær að þú áttar þig á því hversu stórbrotnar þær eru. EN! Já það er en... í þessum flokki er annað virkilega gott handrit. Inglorious Basterds en þar sem þetta er ekki blogg um hana þá ætla ég ekki að fara meira út í það. Allt í allt: Aðeins of djúpt handrit fyrir flesta sem gerir það að verkum að hinn almenni hálfviti á erfitt með að meta það til fulls. Verðlaunin hefðu átt að fara til Tarantino en það var samt mjótt á munum.



Besta leikstjórn: Það verður ekki tekið af Kathryn Bigelow að hún stóð sig frábærlega með þessa mynd. Yfir myndinni er virkilega spennandi blær og öll þessi handheld skot sem að skapa spennu og drama í aðstæðum sem að eru spennuþrungnar og dramatískar gera myndina virkilega trúverðuga. Það lá við að ég fengi þá tilfinningu að ég væri að horfa á heimildarmynd á köflum vegna þess hve myndin endurspeglaði lífi hermannanna vel. Þannig að það verður ekki deilt um það að hún stóð sig virkilega vel en stóð hún sig betur heldur en fyrrverandi eiginmaður hennar sem að var að leikstýra fólki í fáránlegum búningum í heimi sem að enginn á settinu sá? Ég er bara ekki alveg viss.. Ég verð að segja að þetta væri frekar erfitt val en það sem myndi ráða úrslitum fyrir mér er sagan sem að þau eru að vinna með. James Cameron stendur sig vissulega vel í því að leikstýra fólkinu í Pandóru en Kathryn fangar aftur á móti þessar sálrænu breytingar sem að hermennirnir ganga gegnum á snilldarlegan hátt. Allt í allt: Verðskulduð verðlaun

Þá er komið að bombunni...



Besta myndin: Núna verða margir ósammála mér þegar ég segi að þetta hafi verið verðskulduð verðlaun. En ég vil bæta við að þarna er virkilega mjótt á mununum. Það sem gerir þessa mynd frábæra er eins og ég hef sagt áður sálfræðin sem að er tvinnuð inn í hana. Núna er ég mikill áhugamaður um sálfræði þannig að það gæti litað aðeins skoðun mína hérna en whatevs. Þegar ég horfði á myndina í fyrsta skipti þá horfði ég á hana með litlar væntingar og þegar hún kláraðist þá fannst mér hún bara ágæt svo að ég fór að spá, afhverju er hún tilnefnd til svona margra Óskarsverðlauna? Þá fór ég aðeins að hugsa um myndina og þessa setningu sem að kom í upphafi "War is a drug" og eftir því sem að ég hugsaði meira um myndina þeim mun betri fannst mér hún. Og þegar ég horfði á hana í annað skipti þá fannst mér hún bara geðveik og ég held að aðalástæðan fyrir því er það að ég var að pæla í breytingunum og persónuþróuninni í gegnum myndina. En við skulum samt vera snngjörn gagnhvart Avatar ég meina þar er alveg tímamótamynd og hún mun fara niður í sögunni sem bylting í kvikmyndum en við verðum samt að horfast í augu við það að þetta var ekkert sérstök saga þannig séð. Hún var klisjukennd og svona en þrátt fyrir það var myndin frábær. Það verður ekki tekið af henni. Þannig að eins og ég sagði þá er mjótt á munum á milli þeirra en ég verð að gefa The hurt locker þetta, ég skal samt fyrstur allra viðurkenna að hún fékk alveg forgjöf frá akademíunni fyrir það að vera mynd um stríðið í Írak og það að fólk sé að kalla þetta bestu stríðsmynd allra tíma er eitt mesta kjaftæði sem ég hef heyrt ég þarf ekki annað en að nefna: Full metal jacket, apocalypse now, Platoon, Saving private Ryan og We were soldiers og þá er sú fullyrðing hrakin en okei. Allt í allt: Verðskulduð verðlaun en samt með virkilega litlum yfirburðum.



Ef við tökum þetta saman: Það er flestum sama um hljóðverðlaunin, klippingin fær að liggja á milli hluta, handritið var gott en átti ekki að fá verðlaun, leikstjórnin var góð og verðskulduð og besta myndin var verðskulduð með litlum yfirburðum.



Það væri alveg gaman að fá að heyra fleiri hliðar á þessu því að ég veit að það eru eflaust margir ósammála mér með margt hérna, þannig að tjáið ykkur hér fyrir neðan eða bloggiði bara til baka :)

Stjörnur: 4.5 af 5

Tuesday, March 30, 2010

Brooklyn's Finest

Brooklyn's Finest



Jæja ég kem hingað til Danmerkur og fyrsta kvöldið þá ákveð ég að vera bara rólegur heima hjá systur minni og horfa á mynd. Þegar ég spyr hvað er í boði þá segir hún mér frá þessari mynd sem hún hafði náð í nýlega, Brooklyn's finest. Ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei heyrt um þessa mynd og spurði því: Hvaða mynd er þetta? Svarið kom mér virkilega á óvart. Þetta er semsagt löggumynd með, wait for it, Richard Gere, Don Cheadle, Ethan Hawke og Wesley Snipes. Wait Whuuuut? Hvaða mynd er þetta og afhverju hef ég ekki séð hana né heyrt um hana? Þannig að ég ákvað að slá til og hún fer í gang.


Myndin er eftir leikstjórann Antoine Fuqua, sem að ég hef aldrei heyrt um en okei, hún fjallar semsagt um 3 mjög mismunandi löggur.

Fyrst er það Eddie (Richard Gere) sem er gömul lögga og á viku eftir í starfinu. Síðustu árin sín í löggunni hefur hann tekið með mikilli ró og er byrjaður að hugsa meira bara um að klára þessa "afplánun" sem að löggustarfið er fyrir honum. En svo gerist það viku fyrir það að hann fer á eftirlaun að það er ungur svartur drengur drepinn af lögregluþjóni sem að er að reyna að ræna hann í einu hættulegasta hverfi borgarinnar. Þetta verður til þess að löggan fer í gang með heilmikið mission til að halda andliti, eitt af því sem hún gerir er að láta gamalreynda lögreglumenn fara með nýgræðinga í túr um þetta hættulega hverfi og kenna þeim hvernig á að höndla ýmsar aðstæður. Eddie er ekki sáttur með það að þurfa að eyða síðustu 7 dögum sínum í vinnunni á hættulegasta stað fyrir löggur sem fyrirfinnst en hann hefur ekki um annað að velja. En svo æxlast atburðir og allt í einu fer Eddie að hugsa að aðgerðaleysi hans innan lögreglunnar gæti verið að kosta fólk lífið.



Svo er það Tango (Don Cheadle) en hann er undercover í stórum eiturlyfjahring í þessu sama hverfi og Eddie þurfti að vera að vakta. Tango er búinn að vera undercover í tæp 3 ár og er kominn virkilega djúpt inn í eiturlyfjahringinn. Lífið hans er að detta í sundur, konan að skilja við hann, hann er ekki að fá stöðuhækkunina sem að hann er að gera þetta allt til að fá og svo eru mörkin milli hvað er rétt og hvað er rangt farin að mást út. Þegar hann er alveg kominn út á ystu nöf kemur fulltrúi frá Washington á fund með honum með verkefni handa honum, hann á að setja upp eiturlyfjasamning fyrir vin sinn Casanova (Wesley Snipes), sem að er nýkominn úr fangelsi, til að löggan geti handtekið hann aftur. Tango neitar því að Casanova hafði áður bjargað lífi hans en þegar hann heyrir að ef hann gerir þetta þá fái hann stöðuhækkunina sína og lífið sitt aftur þá breytast hlutirnir aðeins. Núna stendur hann frammi fyrir vali, hvort á hann að svíkja vin sinn og fá lífið sitt aftur eða vera tryggur manninum sem bjargaði lífi hans?



Síðastur en ekki sístur er Sal (Ethan Hawke) en hann er sennilega mest fucked up af þeim öllum. Hann á konu og 5 börn og er með tvíbura á leiðinni. Konan hans er fárveik útaf því að hún er með astma og það er mygla í veggjunum heima hjá þeim þannig að hún getur ekki unnið og Sal þarf því að framfleyta konunni sinni og 5 börnum á löggulaunum. Það reynist virkilega erfitt og þegar hlutirnir verða erfiðir taka menn oft til örþrifaráða. Sal fer að hugsa út í það að ræna dóppeningum þegar hann fer í raid á dópbæli hér og þar en finnur aldrei almennilegt tækifæri til þess. Þessi þörf hans fyrir peninga vex þegar hann er búinn að láta taka nýtt hús af markaðnum fyrir sig og fyrsta borgunin fer að nálgast. Með hverri mínútunni sem líður þá verður örvæntingin meiri, spurningin er getur hann staðist freistinguna?


Okei okei, ég veit! Þessi mynd hljómar eins og hún sé drullugóð! Eeeeeeeeen því miður þá er hún ekki eins góð og hún hljómar.Eins og sagt er "Ef það hljómar eins og það sé of gott til að vera satt, þá er það það oftast". Mynd með stórleikurum og fínni sögu á að verða góð en hún er það bara einhvernvegin ekki. Ég verð að viðurkenna að það er erfitt að benda á hvað klikkaði en ég skal reyna mitt besta. Ekki misskilja mig samt, þessi mynd er alveg ágæt en þetta er svona mynd sem maður horfir á og segir svo " þetta var ekki skemmtileg mynd en hún var alveg góð" en að mínu mati þá finnst mér mynd sem að skemmtir manni ekki á nokkurn hátt ekki vera góð mynd. En við skulum aðeins fara yfir þetta:

Leikurinn: Heyrðu hvað haldið þið, hann var bara frekar góður eiginlega aðeins meira en frekar bara góður. Gamla brýnið Richard Gere er þrusuflottur í hlutverki löggunnar sem að nennir ekki lengur að vinna vinnuna sína og er það djúpt sokkinn í sjálfsvorkun að hann er búinn að finna huggun á botninum í flösku og hjá hóru sem heitir Angela. Ethan Hawke stendur líka fyrir sínu sem örvæntingafulli kaþólski pabbinn en hans hlutverk er án efa það sem er mest krefjandi í myndinni. Don Cheadle er líka fínn, ekkert eitthvað geðveikur en ágætur samt sem áður. Svo er Wesley Snipes bar good ol' Wesley. Restin af aukaleikurnum eru líka bara ágætir.

Myndataka, klipping og leikstjórn: Okei hérna klikka þeir doldið. Mér fannst leikstjórinn aldrei ná fram réttri stemningu með sviðsetningu, myndatöku eða lýsingu og það er í rauninni bara synd. Klippingin var samt alveg góð þannig að þeir vinna inn nokkur stig þar en ekki nóg til að hefja myndina upp um eitt level. En ég held samt að þetta sé ekki alveg orsökin fyrir því að myndin er ekki eins góð og maður heldur. Ég held að þetta virðist bara vera orsökin en í rauninni þá liggur hún aðeins dýpra.

Handritið: Þarna er hún! Orsökin! Hérna eru öll vandamál myndarinnar. Hún er bara illa skrifuð. Ég veit að sagan hljómar alveg ágætlega þegar þú svona rétt skoðar yfirborðið en eins og glöggir lesendur gerðu sér grein fyrir áðan þá er bara ógeðslega mikið að gerast og það skemmir bara rosalega fyrir. Þessi mynd snýst um það að kafa ofaní huga þriggja mismunandi lögreglumanna. Einn er undercover, einn er bara á vakt og einn er í áhlaupssveit. En útaf því að það er svona mikið að gerast að þá komumst við aldrei undir yfirborðið. Myndin verður grunnhyggin og leiðinleg á köflum því að þrátt fyrir að það sé mikið að gerast að þá náum vð engri tengingu við það. Þessi mynd er bara svona mynd sem þú horfir á með öðru auganu og svo ekkert meir. Ég meina ef að eitthvert ykkar horfir á hana pælið þá í því hversu miklu betri myndin hefði verði ef að Eddie hefði bara verið skrifaður út. Það hefði verið miklu minna að gerast og það hefði verið hægt að láta leiðir lögreglumanna skarast oftar og rekast harðar á. Það hefði verið hægt að eyða meiri tíma í það að tengja okkur inn í huga persónanna en nei, því miður þá var Eddie þarna inni (og hann skiptir bara engu máli í framvindu söguþráðsins) og var bara fyrir. Handritið gerir það bara að verkum að myndatakan og
sviðsetningin og allt virðist vera yfirborðskennt. Þvílík synd ef ég á að segja eins og er.



Okei allt í allt: Lala mynd. Illa úthugsuð saga sem virðist vera góð við fyrstu sýn en verður svo leiðinleg þar sem við náum á engan hátt að tengjast persónunum. Þessi mynd var dálítið eins og þrjár stuttmyndir sem að voru að reyna alltof mikið og síðan var þeim hent saman. Ímyndið ykkur þrjár óspennandi stelpur sem að eru fyrst að reyna alltof mikið til að heilla ykkur ein í einu = ekkert sérstaklega gott. Ímyndið ykkur svo þrjár óspennandi stelpur sem að eru allar að reyna allt of mikið til að heilla ykkur á sama tíma = Skelfing. Ég held að það sé ekki hægt að lýsa þessari mynd betur í jafn fáum orðum.

Stjörnur: 2 af 5

Wednesday, March 24, 2010

Shutter Island

Shutter Island



Ég skellti mér nýlega í bíó á þessa mynd eftir að hafa horft á trailerinn og hugsað "hey, ég hef ekki farið á hryllingsmynd heillengi". Núna flissa þeir sem að hafa séð myndina vegna þess að algjörlega gagnstætt mínum væntingum þá var þetta bara alls ekki hryllingsmynd fyrir mér. Ég myndi frekar kalla hana sálfræðitrylli. Þessar falsvæntingar mínar um það að ég væri að fara að horfa á hryllingsmynd höfðu vafalaust einhver áhrif á skoðun mína á myndinni en það er bara gaman. Ef við snúum okkur núna að myndinni.

Myndin kom út núna í lok febrúar og er eftir meistarann Martin Scorsese. Fyrir þá sem kannast ekki við hann þá er bara eitthvað að því að þetta er alveg með skemmtilegri leikstjórum sem að ég veit um og ég held mikið upp á hann. Hann hefur leikstýrt meistaraverkum á borð við Goodfellas, The Aviator og Gangs of new york. Ég persónulega dýrka stílinn hans og hvernig hann er sem leikstjóri en það er jafn persónubundið og buxnastærð þannig að það er kannski ekkert að marka. Það bætti líka mikið ofan á myndina að ég vissi ekki að hann hafði leikstýrt henni fyrr en eftir á og ég sagði meira að segja við bíófélaga minn í miðri mynd " það mætti halda að Scorsese hafi leikstýrt þessari" og svo viti menn þá kemur nafnið hans á skjáinn í lokinn.

Myndin myndin gerist árið 1954 í bandaríkjunum þar sem U.S. Marshall Teddy Daniels er ásamt félaga sínum U.S. Marshall Chuck Aule að rannsaka mál þar sem einn af sjúklingum Ashcliffe geðspítalans hafði strokið. Ashcliffe er staðsettur á Shutter Island rétt fyrir utan Boston og er geðsjúkrahús fyrir "the criminally insane" þarna eru hættulegustu glæpamenn bandaríkjanna geymdir í 3 álmum, A, B og C álmu. Eyjan sjálf er frekar vingjarnleg við fyrstu sýn nema álma C sem að er gamalt virki úr þrælastríðinu. Teddy og Chuck hefja rannsóknina sína en ekki líður á löngu þangað til að þeir fara að gruna að eitthvað annað sé í gangi. Teddy talar um hvað honum finnist vitnisburðir sjúklinganna vera æfðir og hvað það sé einkar hentugt að yfirsálfræðingur strokusjúklingsins hafi fengið að fara í frí daginn áður en þeir komu. Við komumst svo að því að Teddy er ekki bara þarna til að rannsaka brotthvarfið heldur einnig af persónulegum ástæðum (sem ég ætla ekki að fara út í hér því að það spoilar soldið mikið). Ekki líður svo á löngu þangað til að hann fer að gruna að hann hafi verið leiddur í gildru af bandaríska ríkinu fyrir að vera að spyrja of mikið af spurningum um Ashcliffe. Þessi grunur vaknar þegar mikill stormur skellur á Shutter Island og þeir félagarnir komast ekki burt....



Okei þetta er alveg ekki fullkomin lýsing á söguþræðinum en þetta var það besta sem ég gat gert til þess að spoila ekki myndinni. Snúum okkur núna að nokkrum þáttum innan myndarinnar.

Leikurinn: Leikurinn var afbragðsgóður eins og við er að búast þegar aðalleikarinn er fastagestur Scorsese Leonardo DiCaprio. En hann leysir hlutverk þjáðu sálarinnar Teddy Daniels hreint frábærlega. Félagi hans í myndinni Mark Ruffalo stendur sig einnig mjög vel sem og allir sjúklingarnir á spítalanum. Áhugaverðir karakterar í myndinni eru nokkrir. Fyrir utan aðalpersónurnar (sem að sjálfsögðu verða að vera áhugaverðar til að myndin sé góð) þá er Dr. Cawley (leikinn af Ben Kingsley) virkilega áhugaverður karakter fannst mér. Hann hefur svo mikla trú á starfinu sem er unnið á Ashcliffe að það getur ekkert látið honum snúast hugur, eða svo virðist allavegana vera.



Handritið: Handritið er gott, ég gluggaði aðeins í það eftir að ég kom heim af myndinni og það hjálpar leikurunum mikið að túlka þessa sturlun sem myndin fjallar í rauninni um. Sagan er líka virkilega góð en hún er byggð á samnefndri skáldsögu og er hún heimfærð frábærlega yfir í handrit. En ekkert meira um það því ég vil ekki spoila.

Tónlistin: Tónlistin var mjög góð, skapaði spennu á sumum stöðum og sorg eða samúð á öðrum. Tónlistin var allt sem maður býst við í svona góðri mynd.

Myndataka og Klipping: Þarna klikkuðu þeir aðeins verð ég að segja. Ekki svo mikið í myndatökunni (Enda Scorsese enginn viðvaningur) heldur í klippingunni. Það voru nokkur svona continuity vandamál í myndinni og nokkur atriði þar sem tökur sköruðust. Sem dæmi þá er Chuck einu sinni að teygja sig í brjóstvasann sinn til að ná í leyndan hlut handa Teddy og er kominn með höndina ofan í vasann áður en það er klippt úr þessu semi closeup skoti. Svo er klippt í vítt two shot þar sem hann teygir sig aftur í vasann. Svona hlutir fara frekar mikið í taugarnar á mér en höfðu svo sem ekki mikil áhrif á heildarmyndina. Myndatakan og leikstjórnin var aftur á móti afbragðsgóð enda ekki við öðru að búast. Það má því segja að þarna hafi gæjarnir í klippiherberginu aðeins klikkað. Þó er ekki hægt að kenna þeim alfarið um því að eins og í dæminu hér að ofan þá hefði ekki verið hægt að leysa þetta öðruvísi án þess að taka hljóðið úr synci enda er Chuck að tala allan tímann þannig að sökin þar liggur líka aðeins hjá gamla brýninu Scorsese. Maður spyr sig hvort að hann sé aðeins farinn að kalka?




Í heildina var þetta bara virkilega góð mynd og hún kom mér skemmtilega á óvart og ég mæli hiklaust með því að allir sem fíla sálfræðitrylla með góðu plotti láti þessa ekki fara fram hjá sér. Hún hefur vissulega sína ókosti og getur verið torskilin á köflum en það bætir eiginlega bara við upplifunina á myndinni því að maður á jú ekki alltaf að skilja geðveikt fólk.

Ef ég á að gefa henni stjörnur þá fær hún 4 af 5 hjá mér.



og já p.s. hvað er málið með plásturinn (þið fattið ef þið sjáið hana)

Sunday, February 28, 2010

How High

Jæja, ég vil byrja á að biðjast afsökunnar á bloggleysi.. Veit að það er ekki afsökun en tölvan mín hrundi og ég er fyrst að komast í tölvu núna. En anyways. Bloggum bara.


How High (2001)



Myndin How High er svona klassísk svertingja gamanmynd þar sem þú tekur 2 svarta stonera og setur þá í öfgakenndar aðstæður þar sem þeir eiga ekki heima og þeir byrja að hafa áhrif á allt í kringum sig. Myndin sem er eftir leikstjórann Jesse Dylan kom út árið 2001 og fór leynt svona fyrst um sinn þangað til að aðdáendur heimskulegra gamanmynda (sbr Scary Movie og svona) uppgötvuðu hana af alvöru og núna eru margir sem myndu flokka þetta sem eðalsteypu en ekki bara steypu.

Myndin fjallar um Silas og Jamal sem að hittast fyrir tilviljun fyrir utan prófstöðina fyrir inngöngupróf í háskóla. Þeir verða vinir í gegnum grasreykingar þar sem að Silas vantar pappír en Jamal vantar gras fyrir utan prófstöðina.



Grasið sem Silas er með er samt ekki neitt venjulegt marijuana heldur ræktaði hann það uppúr ösku félaga síns Ivory, sem að dó eftir að það kviknaði í hárlengingunum hans og hann hoppaði útum gluggan og svo í lokin keyrði rúta á hann. Eftir að Jamal og Silas eru búnir að vera að reykja í smá tíma þá birtist Ivory og segir að þetta sé það sem gerist ef maður reykir félaga sinn og að hann hafi öll svörin við prófinu. Með hjálp Ivory fá þeir báðir 10 á prófinu og geta valið sér skóla til að fara í. Eftir að hafa hlustað á mörg tilboð ákveða þeir svo loksins að fara í Harvard. Þegar þangað er komið fer fjörið að byrja. Félagarnir tveir snúa öllu á hvolf í Harvard á sprenghlægilegan hátt.

Ég skal viðurkenna að söguþráðurinn í þessari mynd er virkilega þunnur og að þessi mynd er ekkert sérstaklega góð þannig séð en jesús, hún er fyndin. Þetta er ein af þessum steypumyndum sem að ég get horft á aftur og aftur.

Leikurinn í myndinni er bara nákvæmlega eins og þú býst við í mynd sem að er jafn mikið rugl og þessi og skartar Method Man og Redman í aðalhlutverki. Þrátt fyrir það að þeir séu rapparar þá leysa þeir leiklistaáskorunina alveg nokkuð vel enda kannski ekki mikið challenge fyrir þá að leika tvo grashausa og dólga.

Allt í allt þá er þetta bara svona virkilega þunn og létt gamanmynd sem að mér finnst að sem flestir (sem hafa einfaldan húmor) ættu að sjá.

Læt fylgja með gott atriði úr myndinni hérna:




Svo er ég með í vinnslu færslu um Bourne þríleikinn sem ég reyni að koma inn í kvöld.