Friday, April 16, 2010

Gagnrýnisblogg....

Okei, þegar ég sá þessa pöntun þína þá fór að hlakka í mér. Ég var alveg orðinn tilbúinn í það að skrifa langt og gagnrýnið blogg um námskeiðið og efnið en svo þegar ég fór að hugsa meira og meira um hvað það ætti að vera sem ég ætti að gagnrýna þá fór ég að finna færri og færri hluti. Það þýðir nú samt ekki að þetta námskeið hafi verið gallalaust. Við skulum brjóta þetta niður í nokkra flokka til að gera þetta aðeins skipulagðara og auðveldara að skilja.

1) Væntingar:

Þegar ég ákvað að fara í kvikmyndagerð þá bjóst ég við því að það yrði sjúklega skemmtilegt. Ég var ekki alveg viss um bloggið og hvort að það gæti verið gaman að vera að skrifa einhverjar ritgerðir um allar bíómyndir sem ég horfi á en það kom mér virkilega á óvart hvað það var gaman að blogga. Það var ekki einu sinni farið að fá á mig þreyta þegar ég var kominn í 1000 orð í hverju bloggi (sem að er ekki eðlilegt m.v. þegar ég skrifa íslenskuritgerðir) Námskeiðið í heildina var viiiirkilega skemmtilegt og stóðst undir öllum mínum væntingum og meira til. Þeir sem hafa talað við mig um kvikmyndagerð vita nákvæmlega hversu gaman þetta er búið að vera. Annað sem að kom mér virkilega á óvart með þetta námskeið var áhugavakinn sem þetta varð hjá mér, áður þá hef ég alltaf bara hugsað "hey það gæti verið nett að gera bíómynd eeeen nahhhh ég nenni því ekki". Núna þá líður varla mínúta án þess að mig langi að fara að skrifa handrit eða byrja tökur bara. Þannig að já námskeiðið fær 10 í einkunn fyrir það að hafa staðið undir væntingum!

2) Verkefni:

Maraþonmyndin: Veistu ég er svona semi tæpur á þessari mynd. Jújú það var ágætt að gera hana en ég myndi vilja sjá eitthvað annað verkefni hérna sem fókuseraði kannski aðeins meira að því að virkilega læra kvikmyndunartækni. Eða þá bara að halda verkefninu en fresta því aðeins þangað til að þú ert búinn að fara betur í myndatöku.

Heimildarmyndin: Virkilega skemmtilegt verkefni, lítið hægt að segja annað en það. Halda þessu inni að eilífu því að þetta er krefjandi, fræðandi og virkilega skemmtilegt. Mætti samt setja meiri áherslu á það að beita tæknunum sem að þú kennir í tímanum sem og leggja áherslu á það að fólk læri að finna skot og svona.

Fyrirlestrarnir: Já ég er á báðum áttum með 2 fyrirlestra. Annarsvegar þá er þetta mjög gaman og fræðandi að hlusta og skrifa þessa fyrirlestra en hinsvegar þá er alveg virkilega mikið vinnuálag á manni í þessu fagi ef maður ætlar að fá 10. Þessvegna finnst mér að það ætti að skera aðeins niður verkefnin í námskeiðinu og gefa lengri tíma frekar fyrir stuttmyndirnar.

Handritamappan: Halda þessu alveg nema kannski með smá breytingum eins og að hafa meira svigrúm fyrir því að nemendur geti skrifað sitt eigið handrit frá grunni og jafnvel leggja áherslu á það að það geti hækkað mann upp.

Lokaverkefnið: Þetta er bara það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það eina sem ég sé að hér er það að þetta er sýnt svona rétt fyrir stúdentspróf og er ógeðslega tímafrekt þannig að það mætti gefa aðeins meiri tíma fyrir þetta verkefni. En annars bara snilld.

Námskeiðið fær 8.5/10 fyrir verkefni

3) Efni:

Það er í þessum flokki sem ég er hvað ósáttastur með þennan kúrs. Mér finnst að kvikmyndasagan mætti fjúka að mestu leiti og að kennslan og kennsluefnið ætti miklu meira að miða að því að kenna okkur að verða kvikmyndagerðamenn. Fara betur í mismunandi skot og jafnvel sýna þau með því að tengja cameruna við skjávarpann. Fara í mikilvægi þess að Whitebalancea og hvenær þú átt ekki að gera það, kenna okkur að taka profile skot o.s.frv. Það má allavegana fara meiri tími í þetta þó að kvikmyndasagan þurfi ekki alveg að víkja. Ég veit að þetta var eitthvað smá en ég vil fá meira af þessu og fá kannski myndatökumann í heimsókn einu sinni sem að útskýrir hvernig maður á að taka upp á glidecam, dolly, krana og hvernig er best að ná sem flottustu skotunum af þrífæti. Ég veit bara að eftir að hafa spjallað við Unnar aðeins þá opnaðist fyrir mér nýr heimur af möguleikum. Og já líka sleppa þessu blessaða lokaprófi... mér finnst eiginlega fáránlegt að ég sé nýbúinn að eyða sjúklega miklum tíma í það að gera þessa stuttmynd og svo er ég líka að fara í próf. Mér finnst að lokaverkefnið eigi að vera prófið og til myndanna ættu að vera gerðar strangari kröfur, fólk á að fá meiri tíma fyrir þær, skila aðeins fyrr og áherslan á að vera lögð á fagmannleg vinnubrögð við upptöku og eftirvinnslu.

Fyrir efni fær námskeiðið 7/10

Að öllu þessu sögðu þá vil ég bara enda á að segja að þetta námskeið var það skemmtilegasta sem ég hef farið í á tíma mínum í MR og fyrir það er ég þakklátur. Þetta námskeið opnaða fyrir mér nýja möguleika, nýjar hugmyndir og nýjar pælingar. Virkilega vel að öllu staðið og ég vona innilega að það verði fleiri sem fá að njóta þess að vera í þessu námskeiði á næstu árum.

Takk fyrir veturinn!

1 comment:

  1. Ég þakka hrósið. Virkilega flottar athugasemdir. Ég er í raun sammála flestu þegar ég pæli í því. 10 stig.

    ReplyDelete